Endaði næstum í meðferð hjá verðandi eiginkonu sinni

Mynd: . / Facebook

Endaði næstum í meðferð hjá verðandi eiginkonu sinni

26.09.2020 - 09:41

Höfundar

Hjónin Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir og Ársæll Sigurlaugar Níelsson vinna nú að því að hópfjármagna eftirvinnslu á stuttmyndinni Drink My Life þar sem Marzibil skrifar og leikstýrir spúsa sínum í aðalhlutverkinu. Hjónakornin voru gestir Sigurlaugar M. Jónasdóttur í Segðu mér.

Marzibil og Ársæll kynntust á Tinder og segja það nokkuð algengt meðal hjóna í þeirra vinahópi. „Meðan þetta var nýtt, áður en þetta var gruggað með „hook up“-menningu,“ segir Ársæll. Þau spjölluðu mikið saman á netinu í tíu daga áður en þau loksins hittast á bar meðan Airwaves stóð yfir. „Ég fór beint á barinn að fá mér bjór áður en ég þorði að horfa í kring um mig. Hún er náttúrulega níu árum eldri en ég og stórglæsileg kona. Mér fannst hún vera að spila í úrvalsdeildinni ég einhvers staðar í þriðju,“ segir Ársæll og bætir við að sjálfstraustið hafi á þessum tíma ekki verið upp á marga fiska þar sem hann bjó í kjallara hjá vini sínum meðan hann stóð í skilnaði.

En hún sló ekki hendinni á móti kauða og þau hafa verið saman allar götur síðan. „Við ákváðum að fara í pool,“ segir Marzibil. „Það var auðveldara að þurfa ekki að vera alltaf stressuð, hvað eigum við að tala um núna? Við tókum bara leik og þá fór flæðið vel í gang. En við kláruðum reyndar ekki leikinn.“ Hún segir aldursmuninn milli þeirra aldrei hafa truflað sig. „Fólk sem er orðið þrítugt er bara fullorðið fólk, mér finnst ekki skipta máli einhver ár til eða frá.“

Handtekinn með hass

Leiðir þeirra Marzibils og Ársæls lágu þó næstum því saman mun fyrr á lífsleiðinni þegar Marzibil rak meðferðarstofnunina Götusmiðjuna. „Þegar ég var 19 ára átti ég við ákveðið vandamál að stríða og þurfti að fara í meðferð,“ segir Ársæll. „Ég hafði þá verið handtekinn fyrir að vera með hass á mér þannig það þurfti að drífa mig í meðferð strax. Það var of langur biðlisti á Vog, ég gat komist fljótlega inn í Götusmiðjuna en strax í Byrgið. Pabbi vildi frekar að ég færi strax í Byrgið.“ Þar gekk hann blautur á bak við eyrað í gegn um meðferð með fólki sem sumt hafði kannski 20-30 slíkar á bakinu. „Þeirra raunveruleiki hræddi mig kannski frá því að feta aftur þessa slóð. En ég þurfti bara frí, ég var ruglaður unglingur.“ Hefði faðir Ársæls hins vegar ákveðið að hann gæti beðið eftir plássi í Götusmiðjunni væru þau ekki saman í dag, að sögn Marzibilar. „Ég hefði aldrei opnað á það. Þá er búið að mynda ákveðið samband sem er þannig, og ekkert hægt að breyta því í framtíðinni. Þannig guði sé lof að hann kom ekki.“

Myndin sem hjónakornin vinna að er í raun útskriftarverkefni Marzibilar úr kvikmyndaskólanum frá því 2014, en var of stór og dýr í framleiðslu þá. „Ársæll las yfir handritið fljótlega eftir að við kynntumst og hann tengdi við aðalpersónuna,“ segir Marzibil. „Myndin fjallar um góðan dreng sem á að standa sig en vanrækir sjálfan sig tilfinningalega og andlega, og leyfir sér ekki að vera auðmjúkur, einlægur og hann sjálfur.“ Hún segir þessar týpu víða í samfélaginu. „Maður sér alveg þessa gaura á barnum. Ég held það sé ekki óalgengt að alkóhólismi þróist með þeim sem eru lokaðir, tilfinningalega. Finnst þeir ekki mega vera brothættir því það sér ekki karlmannlegt.“

Faglegt samstarf á settinu

Ársæll segir þessa tegund karlmennsku skaðlega körlum sjálfum. „Það er allt í lagi að gráta. Það er allt í lagi að eiga í trúnaðarsambandi við góða vini. Þú ert ekki minni karlmaður þó þú viðurkennir vanmátt eða einmanaleika.“ Sjálfur hafi hann þó verið í þessum sporum. „Ég hef verið þarna. Sterka þögla týpan í tveimur vinnum sem verður svo allt of fullur. Og þori þá að gráta.“ Marzibil segir að vel hafi gengið að leikstýra eiginmanni sínum. „Þetta var bara mjög faglegt samstarf,“ og Ársæll svarar um hæl, „Hún er mjög góður leikstjóri“. Þau reka líka saman framleiðslufyrirtækið Arcus Films og hafa unnið saman við kvikmyndahátíðina Stockfish í Bíó Paradís og gamanmyndahátíð á Flateyri. Tökum á Drink My Life lauk fyrir um ári síðan en hjónin eru nú loks að hópfjármagna síðasta hjallann í eftirvinnslunni.

Sigurlaug M. Jónasdóttir ræddi við hjónin Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttur og Ársæl Sigurlaugar Níelsson í Segðu mér. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hættum ekkert að lifa lífinu fyrr en okkur er sagt það

Kvikmyndir

Brúsi Ólason hlaut Sprettfiskinn 2018

Kvikmyndir

Bíólögga velur myndir á Stockfish

Kvikmyndatónlist á Stockfish film festival