Donald Trump stóð við stóru orðin og tilnefndi Barrett

epa08700025 US President Donald J. Trump arrives with Judge Amy Coney Barrett (R) as his nominee to be an Associate Justice of the Supreme Court during a ceremony in the Rose Garden of the White House in Washington, DC, USA, 26 September 2020. Judge Barrett, if confirmed, will replace the late Justice Ruth Bader Ginsburg.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stóð við loforð sitt og tilnefndi í kvöld Amy Coney Barrett til að taka sæti Ruth Bader Ginsburg í Hæstarétti Bandaríkjanna. Á meðan Ginsburg var talsmaður kvenfrelsis og frjálslyndis er Barrett fulltrúi kristinna íhaldsafla og er harður andstæðingur þungunarrofs.

Trump jós Barret lofi þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína í Rósagarðinum í Hvíta húsinu með dómarann sér við hlið. „Hún er einn af okkar fremstu og hæfileikaríkustu hugsuðum á sviði laganna,“ sagði Trump við blaðamenn.

Nánast er öruggt að Barret verði samþykkt af meirihluta Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. Stjórnmálaskýrendur telja að með þessu hafi Trump tekist að búa til ákveðin halla sér í hag skömmu fyrir tvísýnar forsetakosningar.

Ákvörðun Trumps hefur mælst illa fyrir hjá Demókrötum en þetta verði þriðji hæstaréttardómarinn sem hann skipar. Áður var naumur meirihluti íhaldssamra dómara en með tilkomu Barret verður hann meira afgerandi eða sex á móti þremur.

Koma Barret eykur einnig líkurnar á því að Hæstiréttur taki aftur fyrir mál sem þykja bæði umdeild og eldfim. Þetta eru meðal annars Obamacare og löggjöf um þungunarrof. Sérfræðingar vestanhafs benda jafnframt á að svo kunni að fara að dómstóllinn þurfi að skera úr um úrslit forsetakosninganna ef svo fer að Trump eða Joe Biden viðurkenni ekki niðurstöðurnar í nóvember.  

Trump hefur þegar sagt að hann kunni að skjóta úrslitunum til Hæstaréttar og finnst það líklegra heldur en hitt enda verði brögð í tafli hjá Demókrötum. 

Demókratar hafa gagnrýnt ákvörðun forsetans og Biden kallaði hana reginhneyksli. „Þegar horft er til þess að umræddur dómari á eftir að sitja í 30 ár er hneisa að það eigi að samþykkja skipan hennar á 30 dögum,“ sagði Biden. Samkvæmt könnun sem Washington Post og ABC gerðu er 58 prósent landsmanna andsnúinn því að skipaður verði nýr dómari svona skömmu fyrir kosningar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi