Árásinni beint að Charlie Hebdo

26.09.2020 - 19:36
Mynd: EPA / EPA
Átján ára maður hefur játað á sig hnífaárás í París í gær sem rannsökuð er sem hryðjuverk. Hann segist hafa viljað beina árásinni að starfsmönnum tímaritsins Charlie Hebdo vegna endurbirtingar umdeildra skopmynda.

Tveir særðust alvarlega í hnífaárás í gær á Richard-Lenoir breiðgötunni, skammt frá fyrrum ritstjórnarskrifstofu skoptímaritsins Charlie Hebdo. Átján ára maður af pakistönskum uppruna, sem búið hefur í Frakklandi í þrjú ár, hefur játað á sig verknaðinn. Sex til viðbótar eru í varðhaldi og verða yfirheyrðir vegna málsins. 

Réttarhöld vegna árásarinnar fyrir fimm árum hófust í þessum mánuði og af því tilefni endurbirti tímaritið skopmyndirnar umdeildu sem urðu kveikjan að þeirri árás. Árásarmaðurinn frá í gær segist hafa viljað hefna fyrir það. Skrifstofur tímaritsins hafa hins vegar verið færðar á leynilegan stað. Þeir sem urðu fyrir árásinni í gær vinna hjá fréttaveitu sem er nálægt gömlu skrifstofum Charlie Hebdo.

Árásin hefur ýft upp gömul sár meðal Parísarbúa þar sem árásin á Charlie Hebdo er mörgum enn í fersku minni. Stjórnvöld segjast hafa vanmetið hættu á hryðjuverkum á svæðinu og hafa boðað aukna öryggisgæslu.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi