38 smit - nýgengi hvergi hærra á Norðurlöndum en hér

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
38 greindust með innanlandssmit í gær. Rúmlega helmingur var í sóttkví. Alls eru nú 435 í einangrun, sá elsti er á níræðisaldri, sá yngsti innan við eins árs. Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú hvergi hærra á Norðurlöndum en á Íslandi eða 113,2 smit.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir tölurnar vonbrigði. Þau hafi verið að vonast til að sjá lægri tölur um helgina. „Við höfum verulegar áhyggjur. Þegar við fórum að hvetja almenning til að draga úr ferðum sínum og vinna heima að það myndi hafa meiri áhrif. Þessi helgi átti að vera ákveðnar krossgötur. Þannig að tölur morgunsins voru vonbrigði,“ segir Víðir.

Verið sé að bíða eftir gögnum til að sjá hvort eitthvað bendi til þess að þetta sé að breytast. Ekki sé útilokað að grípa þurfi til hertra aðgerða. Þá þurfi einnig að sjá hvernig veikindi þeirra sem greindust í toppnum um miðjan mánuðinn þróast, hvort þar séu einstaklingar sem séu að verða veikari. „Næstu tveir sólarhringar munu skera úr um það hvort það þurfi að grípa til hertra aðgerða.“

Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa er nú hvergi hærra á Norðurlöndum en á Íslandi eða 113. Þetta er sú tala sem flest lönd horfa til varðandi aðgerðir á landamærum. Nú geta Íslendingar til að mynda ekki farið til Bretlands, Danmerkur, Noregs og Finnlands án þess að þurfa að fara í sóttkví. Stjórnvöld hér á landi hafa metið öll lönd sem há-áhættusvæði og því þurfa allir að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi