Vill gagnkvæma viðurkenningu vottorða vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að óska eftir því við heilbrigðisráðherra hinna Norðurlandaþjóðanna að ríkin vinni saman að því að taka upp gagnkvæma viðurkenningu vottorða vegna COVID-19.

Með slíkri viðurkenningu mætti undanskilja fólk frá kröfum á landamærum ef það framvísar viðurkenndu vottorði um að það hafi sýkst af veirunni og sé ekki smitandi eða hafi myndað virkt mótefni gegn henni. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér í dag og Svandís kynnti málið á ríkisstjórnarfundi fyrr í dag. Í tilkynningunni segir að að mörgu sé að huga til þess að uppfylla kröfur og gæta fyllsta öryggis prófana og mælinga. 

Eins og stendur taka yfirvöld hér á landi aðeins gild innlend vottorð en starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins vinnur nú að því að koma á fyrirkomulagi hér á landi sem gerir stjórnvöldum kleift að taka til greina sambærileg erlend vottorð. Í tilkynningunni segir að nú sé farin af stað umræða um gagnkvæma viðurkenningu vottorða í Evrópu „sem vert sé að taka þátt í“.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi