Nágrannalönd setja Ísland á lista yfir hættusvæði

epa08340245 An official stands next to a hand hygiene station as Scandinavians who were stranded in Peru due to COVID-19 arrive at the Copenhagen Airport, in Copenhagen, Denmark, 03 April 2020. On board the SAS flight from Lima, there were approximately 290 passengers, of which 200 are Scandinavian nationals who have been stranded in Peru due to the coronavirus pandemic, since the authorities on 16 March banned all flights to and from Europe for 30 days. The SAS aircraft flew the longest flight ever in the company's history.  EPA-EFE/CLAUS BECH DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Scanpix Ritzau
Bretland, Danmörk, Noregur og Finnland eru meðal þeirra sem hafa sett Ísland á lista yfir hááhættusvæði. Á Bretlandi þurfa ferðamenn að fara í tveggja vikna sóttkví, sama gildir um Finnland en í Noregi er sóttkvíin tíu dagar. Landamæri Danmerkur eru lokuð fyrir Íslendingum og þeir komast ekki inn í landið nema eiga þangað lögmætt erindi. Þá þurfa Íslendingar á leiðinni til Sviss að fara í sóttkví við komuna.

Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú komið yfir hundrað hér á landi. Þessi tala er því hærri en í Bretlandi þar sem hún er 87,4. Með nýgengi smita er átt við fjölda smita sem greinast á hverja hundrað þúsund íbúa síðasta hálfa mánuðinn.

Fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að í Danmörku taki nýjar reglur fyrir Íslendinga gildi á morgun, laugardag,  Þá verður Ísland skilgreint sóttkvíarland og farþegar sem koma frá Íslandi til Danmerkur fá ekki landgöngu nema eiga lögmætt erindi til landsins.  

Nýjar reglur taka einnig gildi á laugardag á Bretlandseyjum. Þá þurfa Íslendingar að fara í tveggja vikna sóttkví en rjúfa má þá sóttkví hvenær sem er til að fara úr landi. Sama gildir um Noreg en þar þarf fólk að vera í sóttkví í tíu daga.

Á mánudag þurfa allir Íslendingar sem ferðast til Finnlands að fara í tveggja vikna sóttkví. Frá og með 1. október verður síðan boðið upp á sýnatöku.

Sviss bætti Íslandi á lista yfir hááhættusvæði í dag og þar er því gerð krafa um sóttkví og sama á við um Belgíu. Þar er mælst til þess að fólk fari í sýnatöku og síðan tveggja vikna sóttkví. Þá þykir líklegt að Íslandi verði bætt á lista yfir hááhættusvæði hjá írskum yfirvöldum þegar listinn verður uppfærður. 

Ísland er ekki á lista yfir hááhættusvæði hjá Þýskalandi en þar er miðað við að nýgengi smita sé ekki hærra en 50.  Listinn var síðast uppfærður á miðvikudag en er í stöðugri endurskoðun og ferðamönnum bent á að fylgjast vel með þróun mála.

Tekið skal fram að íslensk stjórnvöld telja öll lönd vera hááhættusvæði. Allir ferðamenn þurfa að fara í sýnatöku við komuna, fimm daga sóttkví og svo aðra sýnatöku.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi