Landsréttur snýr við dómi í máli dagmóður

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Kveikur
Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli dagmóður og sýknaði hana af ákæru fyrir líkamsárás gegn barni. Landsréttur gerir athugasemdir við rannsókn lögreglu og finnur að því hvernig staðið var að sviðsetningu á atburðinum.

Konan var dæmd í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraði og gert að greiða miskabætur upp á hálfa milljón. Ákæruvaldið fór fram á að refsing hennar yrði þyngd fyrir Landsrétti en hún krafðist sýknu. Konan var ein til frásagnar um hvað gerðist og sagði að barnið hefði fallið úr barnastól niður á gólf. Hún hefði komið að því þar sem þá liggjandi á gólfinu fyrir aftan stólinn.

Lögreglan leitaði meðal annars til tveggja erlendra réttarmeinafræðinga sem töldu að ekki væri hægt að útskýra áverkana á barninu með einu falli. Flest benti til þess að það hefði orðið fyrir ofbeldi.

Tveir dómkvaddir yfirmatsmenn voru fengnir til að leggja mat á atvikin sem metin voru í áliti réttarmeinafræðinganna. Þeir reyndust ósammála um svör við matspurningum. Niðurstaða annars þeirra mælti gegn því sem ákæruvaldið hafði byggt á í málinu og segir Landsréttur að samhliða því verði að líta til þess að rannsókn lögreglu hafi að ýmsu leyti verið ábótavant.

Dómurinn bendir meðal annars á að ljósmyndir af áverkum barnsins hafi verið í litlum gæðum og án kvarða sem sýndu nákvæma stærð.  Þá hafi smekkur barnsins ekki verið rannsakaður eða ól stólsins sem það sat í. Landsréttur gerir einnig athugasemdir við það hvernig sviðsetningu á atvikinu var háttað. Til að mynda hafi uppröðun stóla verið önnur og hlutir í umhverfi ekki athugaðir eða gerðar mælingar á þeim. 

Dómstóllinn telur einnig að athugun réttarmeinafræðinganna tveggja fyrir héraðsdómi hafi einblínt um of á frásögn konunnar og hvort hún fengi staðist. Hún hefði greint skýrlega frá því að hún hefði verið að sinna öðru barni og því einungis séð út frá sér á eftir fótum barnsins en ekki aðdraganda fallsins.

Landsréttur kemst því að þeirri niðurstöðu að ekki sé hafið yfir skynsamlegan vafa að konan hafi veist með ofbeldi að barninu. Var hún því sýknuð. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi