Fimm daga brottvísun af þingi fyrir brjóstaþukl

25.09.2020 - 07:06
epa08420342 The Argentine Senate holds the first virtual session in its history, led by the President of that chamber and Vice President of the country, Cristina Fernandez de Kirchner (C), in Buenos Aires, Argentina, 13 May 2020.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
 Mynd: EPA
Kæruleysi við heimavinnu getur reynst dýrkeypt á tímum kórónuveirufaraldurs. Því fékk argentínski þingmaðurinn Juan Emilio Ameri að kynnast í gær, eftir að aðrir þingmenn urðu vitni að ástarleikjum hans og kærustu hans.

Annar þingmaður var að halda ræðu sem birt var á risaskjá sem búið er að koma fyrir í þingsal í Argentínu. Flestir vinna nú að heiman, eins og margir kannast við á þessum tímum. Á skjánum var einnig hægt að sjá aðra þingmenn, við þær vinnuaðstæður sem þeir hafa komið sér upp.

Ameri var heima hjá sér, og sest unnusta hans við hlið hans. Þau sjást saman á skjánum, og verða þingmenn vitni að því þegar Ameri byrjar að þukla á og kyssa brjóst konunnar. Hann lyftir svo bol konunnar þannig að sést í brjóstið, og heldur hann þá áfram að kyssa það. Við það ákvað þingforsetinn Sergio Massa að gera hlé á þingstörfum. Ameri var jafnframt ávíttur og vísað frá þinginu í fimm daga. 

Sjálfur reyndi Ameri að biðjast afsökunar. Hann kvaðst hafa verið viss um að ekkert netsamband væri hjá honum. „Netsambandið er verulega slæmt hér í sveitinni. Kærastan kom út af baðherberginu, og ég spurði hana hvernig henni liði eftir brjóstastækkunina," hefur AFP fréttastofan eftir Ameri. Hann sagði hana hafa farið í brjóstaígræðslu fyrir tíu dögum.

Massa sagði ýmislegt hafa gengið á síðan þingfundir byrjuðu að fara fram í fjarfundaformi. Nokkrir þingmenn hafi sofnað á miðjum fundi, einhverjir falið sig, en það sem Ameri hafi gert hafi verið langt yfir strikið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi