Fáir sem ekki eru „grænir“ hjá COVID-göngudeildinni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
„Verkefnin hafa aukist mjög undanfarnar vikur, samhliða aukningu í fjölda smita,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar Landspítalans. Flestir sem hafi greinst að undanförnu séu þó með fremur væg einkenni. Hann segir álagið þó ekkert í líkingu við það sem var í vor þegar meira var um heimsóknir sjúklinga sem þurftu á meðferð að halda á staðnum.

COVID-göngudeildin leikur lykilhlutverk í því að minnka álagið á heilbrigðiskerfið í farsóttinni. 

Hún fylgist grannt með því hvernig þeim reiðir af sem greinast með kórónuveiruna og hvort þeir séu að verða veikari til að hægt sé að grípa fyrr inn í og koma þannig í veg fyrir sjúkrahúsinnlögn. 

Sjúklingarnir eru litakóðaðir; þeir sem eru með væg eða enginn einkenni eru „grænir“, sjúklingar með miðlungseinkenni eru metnir „gulir“ og þeir sem eru taldir líklegir til að leggjast inn á sjúkrahús eru með rauðan litakóða.

Runólfur segir stöðuna mjög svipaða og hún var í annarri bylgjunni í sumar. Það séu fáir sem ekki séu grænir og það geri stöðuna viðráðanlegri.  Hann bendir samt á að það sé ekki fyrr en komið sé inn í aðra viku frá smiti að sjúklingum fari þá að versna. „Það ætti því að fara reyna á það á næstu dögum.“

Meðalaldurinn sé lægri en í fyrstu bylgjunni og þeir sem eru yngri veikist síður þó það sé ekkert einhlítt. „Við höldum í vonina að það verði ekki mikið um alvarleg veikindi.“

Tveir eru nú á sjúkrahúsi en enginn á gjörgæslu.  Runólfur segir að þetta sé því ekkert í líkingu við það sem var í vor þegar meira var um heimsóknir frá sjúklingum sem þurftu meðferð á staðnum, vökvagjöf og annað slíkt. 

Hann segir það sem hafi breyst sé aðgengi að sýnatöku sem gerir heilbrigðisyfirvöldum kleift að finna fljótt þá sem eru sýktir. „Það gerir okkur kleift að setja fólk fyrr í einangrun áður en þeir geta smitað út frá sér og draga þannig úr útbreiðslu.“

Starfsmenn COVID-göngudeildarinnar hafa haft í nægu að snúast því deildin sá einnig um umfangsmikla skimun á þeim einingum Landspítalans þar sem smit kom upp hjá starfsmönnum. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi