Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Viðskipti Hunter Biden sögð vandræðaleg

24.09.2020 - 02:10
epa07872759 (FILE) - Then US Vice President Joe Biden (R) tours a Hutong alley with his son Hunter Biden (L) in Beijing, China, 05 December 2013 (reissued 27 September 2019). An impeachment inquiry against US President Donald J. Trump has been initiated following a whistleblower complaint over his dealings with Ukraine. The whistleblower alleges that Trump had demanded Ukrainian investigations into US Presidential candidate Joe Biden and his son Hunter Biden's business involvement in Ukraine.  EPA-EFE/ANDY WONG / POOL
Hunter Biden (t.v) ásamt föður sínum, Joe Biden Mynd: EPA
Ekki er að sjá að Joe Biden hafi beitt óeðlilegum áhrifum í varaforsetatíð sinni samkvæmt nýútkominni rannsóknarskýrslu Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. Viðskiptatengsl sonar hans í Úkraínu voru þó vandræðaleg á meðan Biden var í embætti. Hann fékk ítrekaðar viðvaranir um viðskipti sonar síns, Hunter Biden, en greip ekki til neinna aðgerða. 

Hunter Biden sat meðal annars í stjórn úkraínska orkufyrirtækisins Burisma og þáði 50 þúsund bandaríkjadali á mánuði fyrir. Á sama tíma þrýsti Joe Biden á úkraínsk stjórnvöld um að losa sig við spillta embættismenn. Burisma var þá stýrt af auðjöfrinum Mykola Zlochevsky, sem Bandaríkjastjórn taldi greiða úkraínskum stjórnvöldum mútufé.

Hann var einnig í samskiptum við kínverska fjárfesta, sem meðal annars keypti hlut í bandarískum framleiðanda varahluta í bíla. Þau viðskipti hlutu grænt ljós valdamikillar nefndar Bandaríkjastjórnar árið 2015. Ekkert bendir til þess að Joe Biden hafi átt nokkurn þátt í því.

Loks er greint frá þriggja og hálfrar milljónar bandaríkjadala greiðslu sem þeir Hunter Biden og viðskiptafélagi hans Devon Archer hlutu frá fyrirtæki í eigu Elena Baturina fyrir ráðgjafastörf. Baturina er vellauðug, og er eiginkona fyrrverandi borgarstjóra Moskvu. Hún keypti hlut í bandarísku nýsköpunarfyrirtæi í tæknigeiranum árið 2014, en fyrirtækið fór á hausinn í fyrra. 

Hvorugur Biden-feðganna hefur tjáð sig um skýrsluna. Repúblikanar og stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta segja hana sýna augljós brot varaforsetans fyrrverandi. Öldungadeildarþingmaðurinn Ron Johnson, sem stýrði rannsókninni, segir Hunter Biden hafa verið í viðskiptasambandi við Kínverja sem tengdust kommúnistastjórninni á sama tíma og pabbi hans hafi verið varaforseti.

Framboð Trumps til endurkjörs segir skýrsluna sýna umfangsmikla spillingu og gróf brot á þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Þá segja þeir skýrsluna sýna að Biden hafi logið því að hafa aldrei rætt viðskiptin við Hunter. 

Ron Wyden, öldungadeildarþingmaður Demókrata, skrifaði á Twitter að rannsókn þingsins á tilbúnum ásökunum gegn Biden hafi verið sóun á skattpeningum.