Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minna svigrúm í nýjum fæðingarorlofslögum

Mynd með færslu
 Mynd: Wayne Evans - Pexels
Sá hluti fæðingarorlofs sem foreldrar geta skipt á milli sín verður styttur og sá tími sem foreldrar hafa til að nýta sér það verður styttur, verði frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi að lögum. Þar er ennfremur lagt til að foreldrar fái sjálfstæðan rétt til töku orlofs eftir fósturlát eða andvana fæðingu. 

 

Drög að frumvarpinu eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Þau byggja á tillögum samstarfshóps sem skipaður var í fyrra til að vinna að heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt núgildandi lögum er orlofið nú samtals tíu mánuðir, fjórir mánuðir á hvort foreldri og að auki tveggja mánaða sameiginlegur réttur sem foreldrar velja hvernig þeir ráðstafa. 

Til stendur að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði um áramótin og í drögunum er lagt til að því verði skipt jafn þannig að hvort foreldri fái sex mánuði en verði heimilt að framselja enn mánuð til hvors annars. Þá getur móðir fengið 12 mánaða orlof vegna ófeðraðs barns og það sama gildir um foreldri þegar hitt foreldrið er ófært um að annast barn sitt eða sætir nálgunarbanni. 

Lagt er til að það tímabil sem foreldrar hafa til að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs verði stytt, nú er það 24 mánuðir eftir fæðingu barns, en lagt er til að það verði stytt í 18 mánuði eftir fæðinguna. Í drögunum segir að markmiðið sé að foreldrar nýti orlofið fyrstu mánuðina þegar barnið þarf á mikilli umönnun að halda.