HSÍ og KKÍ fresta viðburðum og mótum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

HSÍ og KKÍ fresta viðburðum og mótum

24.09.2020 - 10:16
Handknattleikssamband Íslands hefur ákveðið að fresta bæði yngri flokka mótum og landsliðsæfingum á næstunni. Það er gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar að því er segir í tilkynningu frá HSÍ.

Í tilkynningunni segir að æfingavika A-landsliðs kvenna sem fyrirhuguð var 28. september til 4. október falli niður sem og æfingahelgi yngri landsliða sem átti að vera 30. september til 4. október. Þessa sömu helgi áttu fjölliðamót á vegum KA, Þórs og ÍBV í 5. og 6. flokki karla og kvenna að vera en þeim hefur nú verið frestað.

Þá stóð einnig til að Haukar og Fjölnir yrðu með yngri flokka mót karla og kvenna í 7. flokki þessa fyrstu helgi í október en þeim mótum hefur einnig verið frestað.

HSÍ segist vonast til þess að óvissuástandið í samfélaginu muni skýrast betur á næstu dögum og vikum. Þá verði hægt í samráði við aðildarfélögin að finna hvort hægt verði að koma þessum viðburðum inn í dagskrá vetrarins á ný og þá hvenær.

Uppfært kl. 13:33: Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ hefur sent frá sér sambærilega tilkynningu. Fjölmennum fjölliðamótum í minnibolta 11 ára sem var fyrirhugað um helgina hefur verið frestað. Þá hefur tveimur leikjum í 1. deild kvenna í meistaraflokki verið frestað vegna smits innan Ármanns.

Í tilkynningu KKÍ segir þó að stakir leiki rí meistaraflokki og yngri flokkum verði áfram á dagskrá.

Fyrirsögn fréttarinnar var uppfærð eftir að KKÍ bættist sendi sína tilkynningu.