Eric Trump skikkaður í yfirheyrslu

24.09.2020 - 07:05
epa08629883 Eric Trump looks on as US President Donald J. Trump attends a briefing on Hurricane Laura in the Federal Emergency Management Agency (FEMA) headquarters, in Washington, DC, USA, 27 August 2020. Hurricane Laura made landfall early in the morning on 27 August as a Category 4 Hurricane.  EPA-EFE/ERIN SCOTT / POOL
 Mynd: EPA
Eric Trump, syni Bandaríkjaforseta, er gert að bera vitni hjá embætti ríkissaksóknara í New York fyrir 7. október næstkomandi. Dómari í New York hafnaði jafnframt beiðni Trump um að fresta yfirheyrslunni þar til eftir forsetakosningarnar í nóvember. 

Saksóknari vill ná tali af Eric Trump vegna rannsóknar á viðskiptaveldi föður hans, Trump Organization. Eric Trump er varaformaður þess á meðan faðir hans er í embætti. Lögmaður hans óskaði eftir því að yfirheyrslum yrði frestað vegna tíðra ferðalaga Trumps í tengslum við kosningabaráttu föður hans. 
Skrifstofa ríkissaksóknara í New York bað dómara um að stefna Trump til þess að fá vitnisburð hans og skjöl sem gætu sýnt fram á að átt hafi verið við reikninga Trump Organization til þess að breyta verðmati fyrirtækisins, að sögn CNN.

Letitia James, ríkissaksóknari, sagði eftir úrskurðinn í gær að enginn einstaklingur eða fyrirtæki geti stýrt því hvenær rannsókn fari fram eða skipulagt dagskrá lögformlegrar rannsóknar. Úrskurðurinn sýni að enginn sé hafinn yfir lög.

Eric Trump samþykkti að vera yfirheyrður í júlí, en hætti svo fyrirvaralaust við. Lögmenn hans segja hann aldrei hafa neitað því að bera vitni í málinu. Þeir segjast þó ekki hafa fengið staðfest frá rannsakendum í New York að þeir hafi ekki eða ætli ekki að afhenda öðrum löggæslustofnunum rannsóknargögn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi