Búið að ganga frá starfsáætlun Alþingis

24.09.2020 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Forsætisnefnd Alþingis samþykkti og birti í gær starfsáætlun Alþingis fyrir 151. löggjafarþingið sem hefst á fimmtudag eftir viku. Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra fer fram það sama kvöld. Önnur vika þingsins, fyrsta heila vikan eftir að það kemur saman, verður svo að mestu undirlagt umræðu um fjárlagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra.

Fjárlagaumræðan hefst mánudaginn 5. október og eru áætlaðir þrír dagar undir fyrstu umræðu um frumvarpið. Samkvæmt starfsáætlun verður fjárlagafrumvarpið tekið til annarar umræðu 24. nóvember og þriðju og síðustu umræðu 8. desember. Gert er ráð fyrir þingfundum til 17. desember, viku fyrir jól og síðan aftur frá 12. janúar.

Hlé verður gert á fundum Alþingis í síðustu viku október vegna Norðurlandaráðsþings og kjördæmadaga. Umræða um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fer fram á tveimur dögum seint í mars.

Samkvæmt starfsáætluninni standa fundir Alþingis yfir fram til 10. júní.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi