„Aðeins vottað fyrir ágreiningi um ýmis mál“

24.09.2020 - 08:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarstjórinn í Reykjavík segir mikilvægt að hefja sig yfir flokkspólitískar línur þegar áföll ganga yfir. Það hafi hins vegar „vottað fyrir ágreiningi um ýmis mál í borgarstjórn Reykjavíkur“. Oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir að meirihlutinn ráði því hvort hann vinnur með minnihlutanum, en Sjálfstæðisflokkurinn sé opinn fyrir samstarfi.

Fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar hafa ákveðið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Bæjarstjórn mun því í sameiningu vinna að þeim verkefnum sem framundan eru við rekstur sveitarfélagsins.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að lögð hafi verið á það áhersla í borginni að eiga samráð um hvernig brugðist sé við COVID og hvernig sé tekið á fjármálunum, svo dæmi sé tekið. Hann segir hugsanlegt að ná samstöðu tímabundið, í einstökum verkefnum.

„Ég tengi alveg við það þegar stór áföll ganga yfir, þá er mikilvægt að fólk hefji sig yfir flokkspólitískar skotgrafir og nái saman um meginlínur,“ segir Dagur. „Og það var einmitt það sem við gerðum hérna í borgarstjórn í vor, þegar við stóðum nokkuð einhuga að fyrstu aðgerðum vegna COVID. Það getur hins vegar verið þannig í borgarpólitík og bæjarmálapólitík að aðrir hlutir séu þannig að fólk greini á. Og það hefur svona aðeins vottað fyrir ágreiningi um ýmis mál í borgarstjórn Reykjavíkur.“

En er þetta leið sem þú sem borgarstjóri og leiðtogi meirihlutans værir til í að skoða frekar?

„Við höfum lagt áherslu á að hafa samráð um hvernig við bregðumst við COVID, hvernig við tökum á fjármálunum og grænni endurreisn Reykjavíkur. Við settum fram Græna planið í vor og munum kynna það samhliða fjárhagsáætlun í haust. Og ég vona að sem flestir fylki sér á bakvið það, hvort sem þeir eru í meiri- eða minnihluta.“

En er ekki mikilvægt, þegar svona áfall eins og COVID skellur á, að allir rói í sömu átt?

„Það er engin spurning í mínum huga. Og þess vegna efndum við til samstarfs í borgarstjórn í vor um fyrstu viðbrögð við COVID. Og við munum eiga samtal núna í aðdraganda fjárhagsáætlunar um Græna planið og endurreisnina sem er mikilvægt að verði bæði kröftug, en byggð á raunsæi um það sem gera þarf.“

Ekki hljómgrunnur

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segist opinn fyrir öllu samstarfi, svo lengi sem málefnagrunnur finnst. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn til þess að gefa eftir, ef hann fær eitthvað á móti.

„Ég hef aldrei verið á móti samstarfi, ég held að það sé alltaf gott ef það er um góðar hugmyndir. Og við höfum aldrei útilokað samstarf við aðra, en höfum lagt fram stórar hugmyndir. Nýlega um uppbyggingu á Keldum. En höfum kannski ekki fengið þann hljómgrunn sem við vildum,“ segir Eyþór.

En er þetta hægt í raunveruleikanum?

„Ég held að þegar menn fari í samstarf verði menn að vita um hvað samstarfið eigi að snúast. Það er ekki nóg að fara bara í samstarf. Og okkar áherslur eru alveg þær sömu og hafa verið, og við erum til í samstarf um þær.“

En er þetta þá ekki dauðadæmt, ef menn halda fast í sínar hugmyndir og gefa ekki eftir?

„Við erum alveg til í að gefa eftir ef við fáum eitthvað á móti, það er sú skynsemi sem þarf að vera til í pólitík. En við höfum séð að það vantar hagræðingu í rekstur Reykjavíkur, að hlusta meira á fólkið, og að fara betur með. Og síðan að nýta það byggingarland sem Reykjavíkurborg hefur yfir að ráða. Þannig að við höldum bara áfram að berjast fyrir því.“

En ef menn halda fast í sínar hugmyndir, þá eru kannski ekki miklar líkur á að það verði svona samstarf?

„Ég hef ekki miklar væntingar til þess að þessi meirihluti sé mjög samvinnufús. Hann hefur ekki verið það hingað til. Og hann hefur frekar fellt tillögur, frekar en að skoða þær. Og ég vona að hann læri af því vegna þess að sá sem er í meirihluta, hann ræður. Það er lögmálið. Þannig að meirihlutinn hér ræður hvort hann vinnur með okkur.“

En ef það kæmi svona bónorð, myndir þú skoða það í það minnsta?

„Við skoðum allt. En þá verða að vera málefni á bakvið það. Og ef þau málefni eru góð og við teljum þau vera til hagsbóta fyrir borgarbúa, þá erum við opin,“ segir Eyþór.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi