Á ekki von á átökum innan flokka stuttu fyrir kosningar

24.09.2020 - 22:58
Mynd: RÚV / RÚV
Það er ósennilegt að harkaleg átök verði á landsfundum stjórnmálaflokkanna í vetur, segir prófessor í stjórnmálafræði, enda þá orðið stutt í kosningar. Kórónuveirufaraldurinn setur svip sinn á allan undirbúning. Viðreisn ríður á vaðið á morgun þar sem flokksforysta verður kjörin.

Alþingiskosningar verða 25. september á næsta ári. Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að fresta landsfundi fram á fyrri hluta næsta árs en til stóð að halda hann nú í nóvember. Framsókn og Vinstri græn höfðu áður boðað til landsfunda á næsta ári. Miðflokkurinn heldur flokksráðsfund á laugardag og þar verður tekin ákvörðun um hvenær verði boðað til landsfundar, en til stóð að halda hann í október.  

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins gefur kost á sér til varaformanns þar sem Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður situr fyrir en ósennilegt er að átök verði um formannsembætti þessara flokka. 

Viðreisn heldur fyrri hluta landsþings á morgun. Kjósa þarf varaformann í stað Þorsteins Víglundssonar sem lét af þingmennsku fyrr á þessu ári. 
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður er ein í framboði til formanns og Daði Már Kristófersson prófessor er enn sem komið er eini frambjóðandinn til varaformanns.  Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður hefur boðað endurkomu sína og sækist eftir sæti á lista í einhverju af kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu. 

„Ég hef nú bara skilið það þannig að Benedikt vilji komast í sæti sem er líklegt til að gefa þingsæti en annað les ég nú ekki í það,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Píratar halda aðalfund um helgina þar sem kosið verður í trúnaðarstörf á vegum flokksins. 

Samfylkingin heldur landsfund í nóvember og nú þegar hefur Helga Vala Helgadóttir tilkynnt um framboð sitt til varaformanns gegn sitjandi varaformanni Heiðu Björgu Hilmisdóttur. Enginn hefur enn sem komið er tilkynnt um framboð gegn Loga Einarssyni formanni. 

Ekki liggur enn fyrir ákvörðun um hvenær Flokkur fólksins ætlar að boða til landsfundar. 

Vilji ekki fara í mikil átök svo skömmu fyrir kosningar

„Ég á nú von á því með alla þessa landsfundi að menn fari nú ekki að vera með mikil harkaleg átök, það er stutt í kosningar það er í sjálfu sér í góðu lagi uppá það að vera að kjósa um varaformann en ég held að menn vilji ekki fara í mikil átök svona skömmu fyrir kosningar,“ segir Ólafur.

En hverjar telur Ólafur líkurnar á að aðrir flokkar en þeir átta sem nú eiga sæti á Alþingi nái þingsætum?

„Það er sá eini sem maður sér í augnablikinu er Sósíalistaflokkurinn, bæði Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins miðað við kannanirnar undanfarið benda til þess að þeir gætu orðið hvorum megin sem er við fimm prósentin þröskuldinn þannig að þessir tveir eru alveg opið spurningamerki,“ segir Ólafur Þ. Harðarson.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi