Tugþúsundir í ómerktum gröfum í Mexíkó

23.09.2020 - 05:16
epa06695791 Students and relatives of the 43 students, which went missing in Ayotzinapa, march through the streets during a protest in the municipality of Iguala, Guerrero, Mexico City, Mexico, 26 April 2018. The protest marks the 43rd month since the 43
Námsfólk og ættingjar með myndir af hinum týndu í minningar- og mótmælagöngu í síðasta mánuði. Mynd: EPA-EFE - EFE
Ekki hefur tekist að bera kennsl á nærri 39 þúsund lík fórnarlamba stríðs mexíkóskra stjórnvalda gegn eiturlyfjagengjum. Líkhús í Mexíkó hafa vart undan og hafa mörg líkanna verið sett í ómerktar grafir, að sögn Guardian. Einhver lík eru enn í líkhúsum og yfir 2.500 þeirra voru gefin háskólasjúkrahúsum.

Þetta kemur fram í rannsókn Quinto Elemento Labs í Mexíkó. Þar segir að yfir 27 þúsund lík sem ekki voru borin kennsl á hafi verið grafin í ómerktum gröfum, eða um 70 prósent allra óþekktra líka. Nærri 300 þúsund hafa fallið í átökum stjórnvalda við eiturlyfjagengi síðustu fjórtán ár. Um 73 þúsund til viðbótar er saknað. Fjölskyldur hinna horfnu fá oft litla sem enga hjálp frá yfirvöldum við leitina.

Í rannsókn Quinto Elemento Labs kemur fram að 178 óþekkt lík hafi verið í mexíkóskum líkhúsum árið 2006. Sama ár boðaði Felipe Calderon, þáverandi forseti Mexíkós, stríð gegn eiturlyfjagengjum. Næstu þrettán ár margfaldaðist fjöldi látinna sem ekki gafst tími til að bera kennsl á. Alls bárust líkhúsum 38.891 lík sem enginn veit deili á. 

Víða um land hafa líkhús yfirfyllst. Yfirvöld hafa gripið til ýmissa ráða, á borð við að koma líkum fyrir í kældum flutningabílum. Árið 2018 fundust hátt í 300 lík í flutningabíl í úthverfi Guadalajara eftir að megn rotnunarlykt barst þaðan. Málið vakti mikla hneykslan almennings. Þá hafa borist fregnir af starfsmönnum og nágrönnum líkhúsa sem kvarta undan hræðilegum fnyk sem berst frá þeim.

Samkvæmt skýrslunni halda líkin áfram að hrúgast inn í mexíkósk líkhús þrátt fyrir að stjórn Andres Manuel Lopez Obrador hafi lofað að grípa til sinna ráða. Yfir 4.900 lík sem flutt voru í líkhús í fyrra eru enn óþekkt.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi