Stórleikur James dugði ekki til

epa08689655 Denver Nuggets forward Jerami Grant (C) is surrounded by Los Angeles Lakers guard Rajon Rondo (L) and Los Angeles Lakers forward LeBron James (R) during the second half of the NBA basketball Western Conference finals playoff game three between the Los Angeles Lakers and the Denver Nuggets at the ESPN Wide World of Sports Complex in Kissimmee, Florida, USA, 22 September 2020.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Stórleikur James dugði ekki til

23.09.2020 - 04:43
Þreföld tvenna LeBron James dugði ekki til þess að koma í veg fyrir að Denver Nuggets minnkaði muninn gegn Los Angeles Lakers í úrslitum vesturdeildarinnar í NBA deildinni í körfubolta í nótt. James reyndi að leiða sína menn áfram, en Jamal Murray átti stórleik fyrir Denver sem náði í sinn fyrsta sigur í einvíginu.

Lakers byrjaði leikinn betur en Denver komst svo í forystu seint í fyrsta leikhluta. Hana lét liðið svo aldrei af hendi. Tíu stigum munaði á liðunum í hálfleik og leit út fyrir að Denver ætlaði að kjöldraga Lakers eftir því sem leið á þriðja leikhluta. Að honum loknum var staðan 93-75 Denver í vil. Leikmenn Lakers voru ekki á því að gefast upp. Um miðbik fjórða leikhluta munaði allt í einu aðeins þremur stigum á liðunum, og fengu leikmenn Lakers nokkur tækifæri til að minnka muninn enn frekar. Það tókst hins vegar aldrei og eftir því sem á leið fjórða leikhluta seig Denver aftur framúr, og vann að lokum 114-106. Staðan í einvíginu er nú 2-1 fyrir Lakers. Fjórði leikur liðanna verður háður aðfaranótt föstudags. 

Jamal Murray skoraði 28 stig, gaf 12 stoðsendingar og tók átta fráköst í liði Denver. Jerami Grant skoraði 26 stig, og Nikola Jokic skoraði 22 stig og tók tíu fráköst. LeBron James skoraði 30 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók tíu fráköst í liði Lakers. Anthony Davis skoraði 27 stig.