Stigið gegn Svíum gæti reynst dýrmætt

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stigið gegn Svíum gæti reynst dýrmætt

23.09.2020 - 09:30
Stigið sem íslenska kvennalandsliðið í fótbolta krækti í gegn Svíum í undankeppni EM í gærkvöld gæti reynst afar dýrmætt þegar stigin verða talin saman þegar riðlum undankeppninnar lýkur. Leikið er í níu riðlum í undankeppninni og komast liðin í efsta sæti hvers riðils beint á EM í 2022 í Englandi. Þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti komast líka bein á EM en hin liðin í 2. sæti þurfa að fara í umspil um þrjú síðustu lausu sætin.

Í flestum riðlum undankeppninnar eru liðin í 1. sæti með mikla yfirburði. Í A, B, C, G og I riðli hafa toppliðin ekki tapað stigum ennþá í undankeppninni. Færi svo að Ísland vinni útileikina við Ungverjaland og Slóvakíu síðar í haust en tapi fyrir Svíum gæti stigið í gærkvöld þó vegið þungt í baráttunni um einn af þessum þremur farseðlum inn á EM í gegnum 2. sæti. Sigur í gærkvöld hefði farið langt með að tryggja Íslandi sæti á EM í Englandi. Jafnteflið var því sérstaklega súrt, ekki síst í ljósi þess að Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fullkomnlega löglegt mark í leiknum sem dómari leiksins dæmdi af.

Í nokkrum af riðlum undankeppninnar eiga liðin í 1. og 2. sæti eftir að mætast í báðum innbyrðisleikjum sínum. Það eru því góðar líkur á því að liðið sem endar í 2. sæti F-riðils, hvort sem það verður Ísland eða Svíþjóð komist beint inn á EM án þess að þurfa að fara í gegnum umspil.

Fá lið sem eru taplaus

 Í B-riðli eru bæði Danir og Ítalir taplausir en eiga eftir mætast tvisvar innbyrðis. Í D-riðli  eru Tékkar í 2. sæti. Þeir hafa gert eitt jafntefli og tapað einum leik, en eiga eftir að mæta besta liði riðilsins, Spáni á útivelli. Það er því sennilegt að Tékkar tapi fleiri stigum. Í E-riðli er staðan snúin. Þar eru Finnar á toppnum með þrjá sigra og tvö jafntefli. Skotar og Portúgalar sem koma í 2. og 3. sæti hafa bæði bara leikið tvo leiki og E-riðlinum mun ekki ljúka fyrr en í febrúar. Þessi þrjú lið eiga öll eftir að mætast innbyrðis jafnvel oftar en einu sinni.

Í G-riðlinum eru bæði Austurríki og Frakkland taplaus. Þau eiga þó báða innbyrðisleiki sína eftir. Frakkar eiga eitt besta landslið heims, og ef Frakkar vinna báða leikina við Austurríki þyrftum við ekki að hafa frekari áhyggjur af austurríska liðinu. Í H-riðlinum þyrftu svo Belgar að ná jafntefli eða helst sigri á móti sterku liði Sviss til að eiga möguleika á að skáka Íslandi eða Svíþjóð í okkar riðli.

Staða Íslands vænleg þó ekkert sé í hendi

Það má því segja að staða Íslands sé vænleg og í raun bara ótrúlega góð eftir jafnteflið í gærkvöld. Það er þó auðvitað ekkert í hendi enda þrír leikir eftir hjá Íslandi í undankeppninni. En það gæti farið svo sigrar á móti Ungverjalandi og Slóvakíu myndu duga íslenska liðinu beint inn á EM óháð úrslitum við Svía úti. Ef ekki, þá er allavega ljóst að sigrar á móti Slóvakíu og Ungverjalandi duga alltaf að minnsta kosti til að komast í umspil fyrir EM. Umspilið verður í apríl.

Næsti leikur Íslands í undankeppninni verður við Svía í Gautaborg 27. október. Ísland spilar svo við Slóvaka 25. nóvember og endar á leik við Ungverja 1. desember. Þessir þrír síðustu leikir Íslands í undankeppninni verða allir sýndir á RÚV.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Sænskir sérfræðingar telja Íslendinga rænda sigri

Fótbolti

Svíar segja Sveindísi hafa komið sér opna skjöldu

Fótbolti

Jafntefli gegn Svíum í undankeppni EM