Skot hafi getað hlaupið af án þess að snerta gikkinn

23.09.2020 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Skotvopnasérfræðingur bar fyrir dómi í Noregi í dag að haglabyssan sem Gunnar Jóhann Gunnarsson skaut hálfbróður sinn með til bana í Mehamn í fyrravor hefði verið biluð, þannig að skot hefði getað hlaupið úr byssunni án þess að gikkurinn væri snertur.

Gunnar Jóhann hefur haldið því fram að skot hafi hlaupið úr byssunni þegar hann og Gísli Þór Þórarinsson hálfbróðir hans tókust á um vopnið. Hann hafi aldrei ætlað sér að drepa Gísla, aðeins að hræða hann. Gunnar Jóhann segist aldrei hafa tekið í gikkinn. 

Fyrir dómi kom fram að samkvæmt krufningarskýrslum hafi Gísli verið skotinn skáhallt, ofan frá og það stemmi við frásögn Gunnars Jóhanns fyrir dómi í gær.

En hann sagði einnig að þeir hefðu slegist á gólfinu en það passar ekki við ummerki á staðnum, að mati sérfræðinganna sem báru vitni í dag.

NRK segir að vinur Gunnars Jóhanns hafi í gær greint frá því fyrir dómi að eftir að Gísli var skotinn hafi hann reynt að skríða út um dyrnar en Gunnar dregið hann aftur inn. Gunnar hafi þá hlaðið byssuna aftur og sagt að Gísli gæti nú beðið hann afsökunar. Þar hafi ráðið afbrýðisemi vegna þess að Gísli hafði tekið saman við fyrrverandi eiginkonu Gunnars. Gunnar heldur því hins vegar fram að hann hafi hlaðið byssuna aftur því hann hefði ætlað sér að svipta sig lífi.  

Fór úr dómsal á meðan myndir frá vettvangi voru sýndar

Vefmiðillinn iFinnmark greinir frá því að Gunnar Jóhann hafi óskað eftir því að fá að fara úr dómssal á meðan myndir voru sýndar frá vettvangi. Á myndunum hafi mátt sjá mikið af blóði. Í vitnisburði lögreglumanns hafi komið fram að blóð hafi verið á dyrakörmum og það stórir blóðflekkir á gólfi sem passi við að liggjandi maður hafi reynt að komast út, til dæmis til að kalla eftir hjálp. Skotið hafi hæft Gísla í slagæð og það skýri hvers vegna blóðið var svo mikið. Þá sagði lögreglumaðurinn í vitnisburði sínum að Gunnar hefði gegnið um húsið eftir að hafa skotið Gísla. Eitt skot hafi hæft Gísla og annað vegg í stofunni. Blóð hafi bæði verið innan í skóm Gunnars og utan á þeim, buxum hans og skyrtu. 

Þá sagði lögreglumaðurinn að blóð hefði fundist í svefnherbergi Gísla, þangað hafi Gunnar einnig farið. Gunnar hefur sagt fyrir dómi að hann hafi farið þangað inn til að svipta sig lífi. 

Fingrafarasérfræðingur bar einnig vitni og sagði að ekki væri útilokað að Gísli hefði gripið í byssuna þótt ekki fyndust á henni fingraför hans. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi