Samningslaust Brexit þrefalt dýrara en COVID-19

23.09.2020 - 13:51
epaselect epa08060183 Prime Minister Boris Johnson delivers a speech during a visit to the JCB Cab Manufacturing Centre, in Uttoxeter, Britain, 10 December 2019. Britons go to the polls on 10 December in a general election.  EPA-EFE/PETER POWELL .
 Mynd: EPA
Skaðleg efnahagsáhrif af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án fríverslunarsamnings verða allt að þrefalt meiri en áhrif heimsfaraldursins. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á vegum breska háskólans London School of Economics og hugveitunnar UK in a Changing Europe sem breska blaðið Guardian fjallaði um í dag.

Búast við 8 prósenta samdrætti vegna Brexit

Í skýrslu um rannsóknina segir að til langs tíma litið megi búast við að heildarkostnaðurinn fyrir breska hagkerfið af samningslausri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verði tvö- til þrefalt meiri en sá kostnaður sem breski Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir vegna COVID-19-faraldursins. 

Til langs tíma gæti landsframleiðsla Bretlands dregist saman um allt að 8 prósent, gangi ríkið úr Evrópusambandinu án fríverslunarsamnings. Sé miðað við verðlag þessa árs jafngildir upphæðin 2.400 pundum fyrir hvern íbúa Bretlands, eða næstum 425 þúsund íslenskum krónum. Breski Seðlabankinn hefur áætlað að neikvæð efnahagsáhrif af heimsfaraldurinum verði um það bil 1,7 prósent af landsframleiðslu til ársins 2022.

„Hagfræðingar hafa talað um V-laga, W-laga og K-laga efnahagsáhrif af COVID-19, en eftir samningslaust BREXIT verður hægara sagt en gert fyrir Bretland að ná sér upp úr vandræðum,“ segir í skýrslunni.

Skaðlegar viðskiptahömlur

Í skýrslunni er til dæmis talað um langtímaáhrif viðskiptahafta á orðspor landsins og neikvæð efnahagsleg áhrif af hömlum á fólksflutninga og ferðamennsku. Þá verði kostnaðarsamir háir tollar á neysluvörur, að minnsta kosti þar til Bretland hefur gert samninga við Evrópuríkin um milliríkjaviðskipti. Fyrirtæki innan Evrópusambandsins muni forðast viðskipti við Bretland og alþjóðleg fyrirtæki sömuleiðis. 

Áhrifin af faraldurinum meiri til skamms tíma

Í skýrslunni segir þó að til skamms tíma „blikni Brexit-áhrifin í samanburði við COVID-19-áhrifin“ og að jafnvel svartsýnustu spár um áhrif útgöngunnar geri ráð fyrir jafnsnarpri niðursveiflu og heimsfaraldurinn hafði í för með sér á öðrum ársfjórðungi þessa árs. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi