Sænskir sérfræðingar telja Íslendinga rænda sigri

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sænskir sérfræðingar telja Íslendinga rænda sigri

23.09.2020 - 07:00
Sara Björk Gunnarsdóttir jafnaði í leik Íslands og Svíþjóðar í undankeppni EM í fótbolta í gærkvöld í lok fyrri hálfleiks, eða svo hélt hún og raunar allt íslenska liðið. Dómari leiksins, Ivana Martincic frá Króatíu dæmdi markið þó ekki gilt. Ákvörðun sem kostaði Ísland líklega sigurinn, því úrslitin urðu 1-1 jafntefli.

Leikurinn í gærkvöld var sýndur í Svíþjóð í sænska ríkissjónvarpinu, SVT og eftir leik var viðureignin krufin til mergjar með sérfræðingum. Markus Johannesson annar tveggja sérfræðinga SVT sagði um mark Söru Bjarkar: „Sænska liðið hlýtur að vera í skýjunum með þessa ákvörðun dómarans. Ég get ekki með nokkru móti skilið af hverju dómarinn dæmdi aukaspyrnu en ekki mark,“ sagði Johannesson á SVT eftir leikinn.

Daniel Nannskog, hinn sérfræðingurinn í útsendingunni, tók í sama streng. „Ég hefði verið brjálaður í sporum Íslendinga. Þær eru rændar marki. Musovic átti bara að vera sterkari þarna,“ sagði Nannskog og vísaði til Zeciru Musovic markvarðar Svía sem féll við þegar markið var skorað.

Í umfjöllun SVT um leikinn er líka sagt að Ísland hafi verið nær því að vinna leikinn en Svíþjóð. Svíar virðast því sammála Íslendingum í öllum aðalatriðum um leikinn í gær. Bæði að mark Söru Bjarkar sem dæmt var af hafi verið löglegt og að Ísland hefði átt skilið að vinna leikinn.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Stigið gegn Svíum gæti reynst dýrmætt

Fótbolti

Svíar segja Sveindísi hafa komið sér opna skjöldu

Fótbolti

Jafntefli gegn Svíum í undankeppni EM