
Björgunarfólk var á leið inn flóann þegar talskonan ræddi við AFP. Nýja vaðan fannst við leit úr lofti snemma í morgun að staðartíma, eða í gærkvöld að íslenskum tíma. Hinir 270 fundust á mánudag. Sérstakir dráttarbátar voru notaðir til þess að reyna að teyma þá sem enn voru á lífi í átt að opnu hafinu.
Nokkrir hvalanna sem komið var til bjargar í gær komu sér aftur í ógöngur, líkt og sérfræðingar bjuggust raunar við. Nic Deka, forstöðumaður umhverfisverndarsviðs Tasmaníu, segir góðu fréttirnar hins vegar þær að meirihluti þeirra sem komið var til bjargar haldi sig í dýpri enda hafsins.
Stærsti hluti hvalanna festi sig í sandrifi, sem aðeins er fært á litlum bátum.
Sérfræðingar eru óvissir um hvers vegna hvalir eiga það til að stranda í hópum. Einhverjir telja að það sé vegna þess að grindhvalir séu það miklar hópskepnur að þeir hafi mögulega fylgt einum eða tveimur hvölum sem villtust af leið við fæðuöflun.