Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Facebook gæti þurft að loka á Evrópu

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Facebook hótar að láta sig hverfa af Evrópumarkaði ef bann verður lagt á að deila gögnum miðilsins með bandarískum stjórnvöldum. Guardian greinir frá þessu. Evrópudómstóllinn úrskurðaði í júlí að ekki væru nægar varnir gegn því að leyniþjónustustofnanir vestanhafs gætu snuðrað um notendur Facebook í Evrópu. 

Írska persónuverndarstofnunin heldur utan um málefni Facebook í Evrópusambandinu. Mál miðilsins hefur velkst um í írska kerfinu í nærri áratug, allt frá því að austurríski lögmaðurinn Max Schrems bar fram kvartanir um brot á friðhelgi einkalífsins árið 2011. Samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins í sumar er bandarískum yfirvöldum óheimilt að fylgjast með íbúum innan ESB og því ólöglegt að gögn um þá liggi á borðum þeirra. Fyrr í þessum mánuði hóf írska persónuverndarstofnunin vinnu við að framfylgja dómsúrskurðinum. Þess hefur þegar verið krafist að Facebook hætti að flytja gögn vestur um haf.

Segja þetta ekki hótun

Facebook sendi írskum dómstólum erindi í gær þess efnis að ef dómnum verði framfylgt sjái fyrirtækið ekki fyrir sér hvernig það geti haldið þjónustu sinni áfram innan Evrópusambandsins. Fyrirtækið þvertók þó fyrir að í þessu væri falin einhver hótun, heldur blákaldur veruleikinn ef af verður. Í erindinu segir að Facebook og fleiri fyrirtæki og stofnanir, reiði sig á að geta flutt gögn á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsríkja í störfum sínum. „Skortur á öruggum og löglegum alþjóðlegum gagnaflutningum skaðar hagkerfið og hamlar vexti gagnadrifinna fyrirtækja í Evrópusambandinu, á sama tíma og við reynum að reisa okkur við vegna COVID-19," segir jafnframt í erindinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV