Blessuð sértu sveitin mín

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV

Blessuð sértu sveitin mín

23.09.2020 - 14:41

Höfundar

Sveitin á að lifa í minningunni en það gleymist stundum að hún lifir ágætu lífi utan hennar líka. Harpa Rún Kristjánsdóttir, bóndi og bókmenntafræðingur, veltir fyrir sér sveitalífinu og nostalgíu borgarbarna.

Harpa Rún Kristjánsdóttir skrifar:

Ég var komin nokkuð til vits og ára þegar ég komst að því að Blessuð sértu sveitin mín væri ekki útfararsálmur. Allt fólk sem ég þekkti voru bændur og þar af leiðandi voru öll sem ég þekkti sem dóu líka bændur. Eða bændafólk. Ljóð Sigurðar Jónssonar frá Arnarvatni við lag Bjarna Þorsteinssonar var hinn fullkomni útgöngumars úr sveitinni og jarðlífinu. Seinna komst ég að því að flestir bændur, og bændafólk, yfirgáfu sveitina sína löngu fyrir andlátið.

Kannski er mikilmennska fólgin í því að tala um borgvæðingu á Íslandi, en hún varð hér nú samt upp úr seinna stríði. Meintur nútími hóf innreið sína og skyndilega hafði unga fólkið ekkert við að vera í sveitinni lengur. Þar kom tvennt til, bæði kölluðu breyttir búskaparhættir ekki á sama fjölda vinnufólks og áður og samhliða því kviknaði þráin eftir einhverju öðru en veruleika forfeðranna.

Strax á þeim tíma fór að gæta nostalgíu, fortíðarþrár, jafnt í listum, menningu og mannshugum. Það verður til tvítog milli kynslóðanna en einnig þeirra sem fóru og þeirra sem voru um kyrrt. Hvorugt hlutskiptið var einfalt, en hægt og bítandi fækkaði þeim sem heima sátu. Nú býr meiri hluti landsmanna á minni hluta landsins. Sveitin er enn til staðar en hvað þá með þrána eftir henni?

Fjöldi fræðimanna hefur fjallað um fortíðarþrá, þrána eftir því sem er horfið. Hún hefur verið skilgreind og skotið upp kollinum sem geðsjúkdómur, bókmenntastefna, listgrein og síðast en ekki síst – samræður við eldhúsborð. Að vanda eru skoðanir skiptar. Sumir telja hana vera flóttaleið, jafnvel andfélagslegt afturhvarf til tíma sem er í raun horfinn og getur aldrei komið aftur. Nostalgía byggist á minningum og líklega er minni alltaf valkvætt.

Fortíðarþráin gefur þess vegna færi á að taka til í fortíðinni, hreinsa hana af öllum sökum, gera hana stöðuga, samfellda og fullkomna sólskinsminningu um barn sem hleypur um hlaðvarpann í félagsskap fjárhundar og heimalninga. Reyndar brýst sólin enn í dag gegnum skýin, hundar tæta fé og lömb missa mæður sínar, en þráin eftir þessum atburðum tengist þeim ekki beint. Hún er þrá eftir horfinni fortíð, þar sem hvorki þurfti að skamma börn né dýr, aldrei rigndi í heyið og sláturhús haustsins var jafn fjarlægt og fullorðinsárin.

Ein þeirra sem velt hafa fyrir sér nostalgíu í póstmódernísku ástandi er kanadíski prófessorinn Linda Hutcheon sem segir að nú á tímum sé fortíðarþráin fyrst og fremst drifin áfram af kaldhæðni. Póstmódernisminn feli í sér tvöfalda kóðun, þar sem afturhvarfið verði alltaf viljandi, en á sama tíma knúið áfram af kaldhæðni. Fortíðarþráin verði í raun sálfræðilegt ástand, þar sem stað er skipt út fyrir tíma. Það er meiri harmur í því að þrá eitthvað sem aldrei kemur aftur, og erfitt að upphefja stað sem reyndar er til – og hefur jafnvel ekki tekið miklum breytingum. Þetta er mikil einföldun, en förum þó að efninu með kaldhæðnina að leiðarljósi, að þessu sinni.

Hér áður fyrr fóru börn í sveit. Flest sem ekki ólust þar upp áttu að minnsta kosti áa eða aðra ættingja á landsbyggðinni. Þessi kynslóð sveitabarna er nú vaxin úr grasi, jafnvel orðin uppspretta eigin kynslóða. Foreldrar, afar og ömmur, sem segja afkomendum sínum upphafnar sögur af ævintýrum. Auðvitað er í mörgum tilfellum um horfinn heim að ræða, en líklega hefur fennt yfir ýmsar sumarminningar á vetrunum fjarri sveitinni í gegnum árin. Bernskusögurnar enda alltaf vel og aldrei eru vandamálin óyfirstíganleg, þegar fortíðarþráin er ein til frásagnar. Nú er svo komið að minningar af þessari tegund verða ekki framar til. Sumardvöl í sveit tíðkast ekki lengur. Þótt sveitin sé enn á sínum stað.

Að senda börn í sveit sumarlangt hefur smættast niður í stuttar heimsóknir, sem flestir bændur kannast við. „Mætti ég koma aðeins með krakkana í sauðburðinn? Við viljum ekkert trufla, en við viljum heldur ekki koma þegar ekkert er í gangi.“ Snúið þessu upp á hvaða aðra starfsgrein sem er til að finna fáránleikann. „Mætti ég sýna börnunum mínum hvernig þú eldar ofan í 200 manna Rússahóp frú matreiðslukona?“ „Er ekki í lagi að þau sitji í fanginu á þér meðan þú stýrir kæri strætisvagnastjóri?“ „Gætu þau fengið að rétta þér hnífinn ungfrú skurðlæknir?“ Álagstími er ekki rétti tíminn fyrir óvæntar starfskynningar en einhvers staðar á sér stað rof, eða það sem kallað hefur verið frávarp í fagurfræði fortíðarþrárinnar. Vonbrigðum nútímans er varpað yfir á fortíðina, sem er upphafin – en verður um leið veruleikafirrt.

Sveitin á að lifa í minningunni en það gleymist stundum að hún lifir ágætu lífi utan hennar líka. Þar með er ekki sagt að bændur vilji ekki fá heimsóknir, en fábreytni gegninganna á útmánuðum er kannski betri tími. Þá má bæði klappa kind og þamba kaffi án þess að líf liggi við – jafnvel í bókstaflegri merkingu. Bændastéttin er ein þeirra stétta sem er nánast ómögulegt að skilja á milli frítíma og vinnu. Starfið krefst stanslausrar viðveru og flestir búa á vinnustaðnum.

Gegnum tíðina hafa búskaparhættir tekið örum breytingum og framþróun til sveita er mikil. Vél- og tæknivæðing hefur létt bændum störfin umtalsvert en einnig bætt við órómantískum en óhjákvæmilegum verkþáttum, vélknúnum mjaltakerfum, rúlluakstri og snjóblæstri – sem minnir lítið á töðuilm foríðarinnar. Frosin sumarmynd bernskunnar kemur ekki heim og saman við hringlaga tíma og framvindu hversdagslegra verka sem eru nauðsynleg í samhenginu. Gallinn er sá að gestirnir hafa lítinn áhuga á hvunndeginum. Þeir þrá heldur horfnar minningar.

Nú er tími réttanna, sem í raun má kalla hinn síðari álagstíma í leik, starfi og gestaánauð sauðfjárbænda. Það er mikil vinna að sækja féð sitt á fjall og sjaldan eins rík ástæða til að gæta að því að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Í hugum margra rís nostalgían frísandi upp á afturfæturna þegar líður að réttum, hlustendur skilja líkinguna – það er ekkert gott við hross sem prjónar. Bændur eru hins vegar upp til hópa besta fólk eða hafa hvorki brjóst í sér né tíma til að reka nostalgískt eftirlegufólk frá fénu sem búið er að smala.

Að þessu sinni hefur þeim reyndar borist aðstoð úr óvæntri átt. Sóttvarnaryfirvöld hafa sett fjöldatakmörk á réttirnar með því að segja upphátt hið augljósa – þú átt ekkert erindi í vinnu ef þú ætlar ekki að gera neitt. Tveggjakindareglan er brosleg aðeins þeim sem ekki vilja virða hana og það sem hún felur í sér, öryggi en ekki síst vinnufrið. Sveitin er enn á sínum stað og sveitarómantíkin er það líka. En það er eins með hana og aðra ást, og ástarþrá. Glæðurnar hlýja þeim sem halda í þeim lífi. Sumar vetur ár og daga.