Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

57 ný kórónuveirusmit – 4.525 sýni

23.09.2020 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
57 ný innalandssmit kórónuveiru greindust í gær úr 4.525 sýnum sem tekin voru. Um það bil helmingur þeirra var í sóttkví við greiningu. Þrír greindust með veirusmit á landamærunum. Einn var með mótefni, en þrír bíða mótefnamælingar.

Tveir eru á sjúkrahúsi með COVID-19 hér á landi. 324 eru í einangrun með virkt veirusmit og samtals 4.361 í sóttkví.

Nýgengi innanlandssmita er nú 83,2 smit. Með nýgengi er átt við uppsafnaðan fjölda smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa. Á landamærunum er nýgengið 4,4 smit.

Eins og áður er Austurland eini landshlutinn sem er smitfrír. Þar eru tveir í sóttkví en enginn í einangrun. Og flestir eru í einangrun á höfuðborgarsvæðinu eða 291. Þar eru 2.077 í sóttkví.

Enn fjölgar þeim á aldrinum 18 til 29 ára sem eru í einangrun með virkt smit. Nú eru 103 í þeim aldurshópi smitaðir en voru 96 í gær. Næst fjölmennasti aldurshópurinn með COVID-19 er fertugsaldurinn. Þar eru nú 72 smitaðir.

Fjöldi smita í hlutfalli við fjölda sýna heldur áfram að lækka. Af 2.798 einkennasýnum sem greind voru í gær voru aðeins 1,93 prósent með smit. Fyrir fimm dögum var þetta hlutfall 4,8 prósent en þá voru ríflega þúsund sýni greind og 56 smit staðfest.