40 fara í sýnatöku í Stykkishólmi í dag

23.09.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Sjö íbúar Stykkishólms hafa greinst með COVID-19. Allt voru þetta samfélagsmit og því hætta á að fleiri greinist. Fjörutíu fara þar í sýnatöku í dag.

Fyrsta smitið greindist um helgina. Fleiri greindust í kjölfarið og nú eru sjö í einangrun og sextán í sóttkví. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir að staðan sé mjög óljós. Fjörutíu fari í sýnatöku í dag sem er fimm til tíu prósent fullorðins fólks í bænum.

„Það er mikil nánd í okkar samfélagi og þessir einstaklingar sem eru smitaðir hafa umgengist hópa fólks hérna í Stykkishólmi. Í ljósi fjölgunar smita hérna í Stykkishólmi er búist við töluverðri fjölgun.“

Gripið hefur verið til aukinna ráðstafana, meðal annars með hólfaskiptingu í skólum og heimsóknarbanni á dvalarheimili aldraðra. Jakob segir að staðan sé metin daglega og bærinn reiðubúinn til að grípa til frekari aðgerða.

„Einnig höfum við sérstaklega verið að hvetja þá sem hafa tekið þátt í stórum samkomum, til dæmis á borð við réttir að fara sérstaklega varlega og herða sínar persónulegu sóttvarnir,“ segir hann.

Enginn greindist smitaður á Akranesi í gær

Á Vesturlandi öllu eru 11 í einangrun og 93 í sóttkví. Um 170 akurnesingar sem þurftu að fara í sóttkví í síðustu fóru í skimun í gær. Enginn þeirra reyndist smitaður. Í dag eru fjórir í einangrun á Akranesi og fjölgar ekki á milli daga. 64 eru þar í sóttkví.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi