17 ára tekinn á 157 kílómetra hraða

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann á Kringlumýrarbraut í Reykjavík í gærkvöld. Hann hafði þá mælst á 157 kílómetra hraða en hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Ökumaðurinn reyndist vera sautján ára, þegar að var gáð, og því tiltölulega nýkominn með bílfpróf.

Að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar var málið afgreitt með aðkomu föður piltsins og tilkynningu til Barnaverndar. 

Annar ökumaður var stöðvaður talandi í síma við akstur og fjórir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

Karlmaður var handtekinn ofurölvi á veitingastað í Kópavogi í gærkvöld, upp úr klukkan tíu. Hann er grunaður um eignaspjöll og líkamsárás og fór ekki að tilmælum lögreglu. Hann gisti í fangaklefa í nótt.

Harður árekstur varð á Akureyri í nótt. Tveir bílar skemmdust en fólk meiddist ekki, að sögn lögreglu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti veikan sjómann norður af landinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi