Vinna lengur ef aðsóknin verður mikil í sýnatöku

22.09.2020 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sólveig Klara Ragnarsdó
Stöðugur straumur fólks hefur verið í sýnatöku heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut í dag. Þetta segir Agnar Darri Sverrisson, verkefnastjóri yfir sýnatöku hjá heilsugæslunni. Allt stefni í að sýnin sem tekin verði í dag verði tæplega þrjú þúsund þegar síðustu eru búnir í skimun um áttaleytið í kvöld. Hann leggur áherslu á að aðeins þeir sem hafi einkenni komi í sýnatöku. 

 

„Við erum búin að taka tæplega 1.500 einkennasýni í dag og svo eitthvað í kringum 500 landamærasýni og sóttkvíarsýni. Þannig að örugglega eitthvað um tvö þúsund sýni eins og staðan er núna,“ sagði Agnar í samtali við fréttastofu á fimmta tímanum í dag. 

„Það er búið að bóka í slott alveg til 19:15 núna og við höfum opið til 20. Ef það fyllast slott alveg þangað til þá erum við með mannskap til klukkan átta í kvöld.“

Stöðugur straumur í skimun

Hefur aðsókn í skimun verið eins miikil og búist var við?  „Já og nei, við bara buðum öllum að koma sem eru með einkenni. Það hefur verið stöðugur straumur í allan dag. Þetta er svona sirka það sem við bjuggumst við. Miðað við ásóknina í gær í hádeginu þá sprakk heilsuveran bara strax þannig að við kannski bjuggumst við fleirum en þetta er bara fínt eins og þetta er núna.“
 
Agnar segir að aðeins sé tekið á móti fólki í skimun sem hafi einkenni kórónuveirusmits. 

„Við náttúrlega imprum á því að þetta er einkennasýnataka. Við erum ekki að taka sýni úr þeim sem ekki eru með nein einkenni. Við viljum bara koma þeim að sem eru með einkenni, þeir eru í algjörum forgang. Ef það er mikil aðsókn þá bara vinnum við lengur. Við bara látum það ganga upp.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi