Verður ekki skylda að vera með grímu í grunnskólum

22.09.2020 - 19:29
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Yfir fjögur hundruð nemendur og starfsmenn í grunn- og leikskólum höfuðborgarinnar eru í sóttkví vegna smits meðal nemenda eða starfsfólks. Ekki stendur þó til að auka sóttvarnaráðstafanir í skólunum, líkt og gert hefur verið í framhalds- og háskólum.

Næstum 2.300 manns eru í sóttkví hér á landi, langflestir þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Það er fyrir utan þá sem eru í svokallaðri skimunarsóttkví eftir komuna til landsins. 

Um helmingur nemenda sem eru í sóttkví eru í 7. bekk

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru 320 nemendur í grunnskólum borgarinnar í sóttkví vegna smita í skólunum. Langflestir eru í sjöunda bekk, eða 155. 
43 starfsmenn grunnskóla eru í sóttkví, 11 starfsmenn leikskóla og 33 leikskólabörn.

Þetta er fyrir utan þá starfsmenn og nemendur sem eru í sóttkví vegna smita sem komið hafa upp utan skólanna.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að ekki standi til að hafa grímuskyldu í skólunum, eins og gert var í framhalds- og háskólum í gær. „Grímur geta veitt falskt öryggi og gagnvart börnum, litlum börnum, að vera með grímur, það er bara heilmikið og flókið mál að þau séu með grímur með réttum hætti þannig að þær skili tilætluðum árangri,“ segir Helgi. Hann telur vænlegra að treysta á nándarmörk og þrif.

Getur haft sálræn áhrif á börnin að vera með grímu

Helgi segir að taka þurfi með í reikninginn sálræn áhrif þess á börn að þurfa að vera með grímu. „Allt svona hefur mikil áhrif á börn,“ segir Helgi. „Við erum að reyna að skapa í skólunum okkar eins heimilislegt og notalegt umhverfi og við getum í okkar stofnunum og að þetta sé bara venjuleg rútína og venjulegur skóladagur. Það teljum við að skipti börnin mjög miklu máli,“ segir Helgi.

Smitin víðsvegar um höfuðborgarsvæðið

Ekki fæst upp gefið í hvaða skólum komið hafa upp smit, en vitað er til þess að öll börn og starfsmenn sem voru á frístundaheimili Hvassaleitisskóla á föstudag hafa verið send í sóttkví. Ein deild leikskólans Ægisborgar er í sóttkví, sjöundi bekkur í Melaskóla og sjöundi bekkur Ingunnarskóla í Grafarholti, og 64 nemendur og starfsmenn Vesturbæjarskóla. 

Þetta er ekki bundið við Reykjavík, en allir nemendur Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi voru sendir heim í morgun eftir að smit greindist hjá nemanda á unglingastigi í gær. Leikskólinn Akrar í Garðabæ verður lokaður næstu daga sem og ein deild leikskólans Ása vegna smita hjá starfsmönnum. 
 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi