„Það vantar milljarða inn í reksturinn“

22.09.2020 - 20:41
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Rekstrarafgangur fjögurra af fimm stærstu sveitarfélögum landsins versnar um 6 milljarða miðað við sama tíma í fyrra samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri. Tekjurnar lækka og útgjöld hækka. Fyrst og fremst má rekja versnandi efnahag sveitarfélagana til faraldursins segir sviðstjóri hag- og upplýsingasviðs Samtaka íslenskra sveitarfélaga.  

Fjárhagsstaða sveitarfélaga versnar til muna samkvæmt árshlutauppgjöri stærstu sveitarfélaganna fyrir fyrri hluta árs 2020 sem kynnt var í dag.

Sigurður Ármann Snævarr er sviðstjóri hag- og upplýsingasviðs Samtaka íslenskra sveitarfélaga.  

„Akureyrarbær er til dæmis með neikvætt veltufé frá rekstri og verður að taka lán fyrir lífsnauðsynjum“

Atvinnuleysi hefur aukist gríðarlega. Starfandi fólki hefur fækkað um fjögur þúsund manns í þeim sveitarfélögum sem um ræðir en þau eru Reyjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupsstaður og Akureyrarbær. Þar búa 220 þúsund manns sem eru um 60% þjóðarinnar.
Nú er svo komið að tekjustofnarnir eru of litlir fyrir þau verkefni sem sveitarfélögunum ber að sinna.

„Niðurstaða okkar af þessu 6 mánaða uppgjöri sýnir mjög alvarlega stöðu. Og hún er þeim mun alvarlegri þegar maður hugsar til þess að við erum rétt að byrja að dýfa tánum ofan í stærsta efnahagssamdrátt í manna minnum og það mun sannarleg hafa áhrif á sveitarfélögin.“

Þau eigi nú mjög erfitt um vik og geti í raun hvorki minnkað útgjöldin né aukið tekjurnar.

„Eina leiðin er að biðla til ríkisins. Við erum að skoða fjárhagsaðstoðina sérstaklega þessa dagana. Menn eru að spá því að hún verði tvöfalt meiri á næsta ári en hún var  í fyrra. Hún færi þá úr 3,2 milljörðum í 6,7 milljarða.“

Meiri fjármuni þurfi að leggja til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

„Þar undir eru meðal annars málefni fatlaðs fólks. Það er málaflokkur sem er svo viðkvæmur að það er ekkert hægt að gera. Tekjurnar inn í þann sjóð eru að minnka og það er gríðarlegt áhyggjuefni. Stóra myndin er sú að það vantar milljarða og jafnvel milljarðatugi inn í þennan rekstur. Það er alveg augljóst að við erum að horfa fram á mjög erfiðan vetur.“ 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi