Tekur myndir af þúsund andlitum Heimaeyjar

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV-Landinn

Tekur myndir af þúsund andlitum Heimaeyjar

22.09.2020 - 07:30

Höfundar

Síðustu vikur og mánuði hefur Bjarni safnað andlitsmyndum fyrir heimildaverkefnið Þúsund andlit Heimaeyjar. „Þetta verða ábyggilega meira en þúsund manns, mögnuð þátttaka,“ segir Bjarni Sigurðsson, ljósmyndari og kokkur í Eyjum.

Myndar elstu íbúa Heimaeyjar

Bjarni vinnur verkefnið í samstarfi við Leturstofuna í Vestmannaeyjum þar sem hann hefur verið með aðstöðu en þennan daginn, þegar Landinn fær að fylgjast með, hefur hann breytt æfingasal hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hraunbúða í ljósmyndastofu til að spara heimilisfólki og gestum sporin. Þar á meðal eru elstu íbúar Heimaeyjar, 98 ára.

Ætlar að gefa bænum myndasafnið

Innan skamms hafa yfir þrjátíu ný andlit bæst í hópinn. Bjarni hyggst setja upp sýningu með myndunum og einstaklingar geta einnig keypt þær af honum en megintilgangurinn er að afhenda þær Vestmannaeyjabæ.