Suarez sakaður um prófsvindl

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Suarez sakaður um prófsvindl

22.09.2020 - 21:11
Úrúgvæski fótboltamaðurinn Luis Suarez virðist kominn í nokkuð undarlegt klandur. Hann er sakaður um að hafa svindlað á ítölskuprófi.

Suarez, sem leikið hefur með Barcelona undanfarin 6 ár, hefur verið orðaður við Juventus á Ítalíu á liðnum vikum. Til að komast framhjá ítölskum reglum um fjölda leikmanna frá löndum utan EES sótti hann um ítalskt vegabréf, en hann á ítalska forfeður. 

Til að fá vegabréfið þurfti hann að taka próf í ítölsku og þá fór allt í skrúfuna. Hann tók vissulega prófið og stóðst það en yfirvöld á Ítalíu rannsaka nú hvort hann hafi fengið uppgefin svörin á prófinu fyrirfram. 

Rektor háskólans í Perugia þar sem Suarez tók prófið er til rannsóknar en hann er talinn hafa gefið Suarez svörin og verið búinn að ákveða einkunnina fyrirfram. 

Alls er óvíst hvort Suarez fari til Juventus en hann er nú orðaður við Atletico Madrid á Spáni. Ljóst er þó að ítölskuprófið góða gæti dregið dilk á eftir sér fyrir háskólann í Perugia.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Suarez gagnrýndi þjálfarann eftir jafntefli