Rúnar Alex ætlar sér aðalmarkvarðarstöðuna hjá Arsenal

Mynd: Arsenal / Arsenal

Rúnar Alex ætlar sér aðalmarkvarðarstöðuna hjá Arsenal

22.09.2020 - 20:56
Rúnar Alex Rúnarsson, sem í gær gerði fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Arsenal, segist gríðarlega ánægður að hafa samið við félagið. Hann ætlar að berjast um aðalmarkvarðastöðu liðsins.

Arsenal keypti Rúnar Alex frá Dijon í Frakklandi og er kaupverðið talið nema um á bilinu 250 til 300 milljónum króna. Rúnar Alex segir í samtali við heimasíðu Arsenal að gærdagurinn hafi verið mjög mikilvægur fyrir sig og fjölskyldu sína.

„Ég er afar glaður og afar hreykinn. Þetta er stór dagur fyrir mig og fjölskylduna. Ég get ekki beðið að byrja."

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR og leikjahæsti landsliðsmaður Íslandssögunnar, er faðir Rúnars Alex. Hann er skiljanlega stoltur af stráknum. 

„Auðvitað er maður gríðarlega stoltur af stráknum að taka þetta stóra skref inn í ensku úrvalsdeildina. Þannig að jú jú, ég er yfir mig stoltur."

Rúnar Alex verður varamarkvörður þýska landsliðsmannsins Bernd Leno. Hann segir það þó ekki koma í veg fyrir að hann ætli að veita honum samkeppni.

„Ég hvað hann getur og vonast til að geta lært af honum jafnt og að veita honum samkeppni um aðalmarkvarðarstöðuna."

Rúnar Kristinsson segir soninn vera tilbúinn fyrir samkeppnina. „Þetta er bara samkeppni eins og hún er alls staðar og hann er tilbúinn í hana og auðvitað er þetta bara frábær staður til þess að verða betri markvörður og vera í svona frábærum klúbbi. Og hann er bara tilbúinn í samkeppni en það er ekkert búið að segja við hann hvort hann eigi að vera númer eitt, tvö eða þrjú þannig að hann fer bara þarna sem einn af þremur í ákveðnu teymi. ))

Rúnar Alex hóf feril sinn hér heima með KR sumarið 2013, þá 18 ára gamall. Sá sem gaf honum fyrsta tækifærið í meistaraflokki var einmitt faðir hans.

„Hann er bara búinn að fara í gegnum sinn skóla hér sem leikmaður í yngri flokkum og kemur svo mjög sterkur upp úr öðrum flokk og er í raun í öðrum flokk þegar við spilum honum og þá einmitt kemur þetta upp, Hannes var þá markmaður okkar og hann fer í leikbann og þá var Alex varamarkvörður og það var ekkert annað en að setja hann í markið. En við treystum honum fullkomlega. Hann var búinn að spila einhverja æfingaleiki fyrr um veturinn þetta ár og hann var frábær í þessum leik sem hann fékk og ég var dálítið skammaður fyrir að taka hann úr liðinu, af því að hann varði vítaspyrnu og átti frábæran leik. En ég, hérna, setti Hannes aftur í markið í næsta leik."

Tengdar fréttir

Fótbolti

Rúnar Alex orðinn leikmaður Arsenal