Nóbelshátíðinni í Stokkhólmi aflýst

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr

Nóbelshátíðinni í Stokkhólmi aflýst

22.09.2020 - 14:20

Höfundar

Hátíðlegri athöfn þegar Nóbelsverðlaunin eru afhent í Stokkhólmi hefur verið aflýst í ár. Það hefur ekki gerst síðan árið 1944. Athöfnin fer ávallt fram tíunda desember að viðstaddri sænsku konungsfjölskyldunni.

Í tilkynningu sem sænska Nóbelsnefndin sendi frá sér í dag segir að verðlaunahafarnir taki að þessu sinni ekki við viðurkenningum sínum úr hendi konungs heldur verði þau afhent í heimalandi hvers og eins. Tilkynnt verður dagana fimmta til tólfta október hverjum hlotnast Nóbelsverðlaunin í ár í læknisfræði, eðlisfræði, efnafræði, bókmenntum og hagfræði auk friðarverðlauna Nóbels sem í venjulegu árferði eru afhent í Ósló.