Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Konurnar tvær og leiðin í sæti hæstaréttardómara

epa07836145 (FILE) - People gather to enter the US Supreme Court in Washington, DC, USA, 24 June 2019, (reissued 11 September 2019). According to reports on 11 September 2019, The Supreme Court of the United States (SCOUS) issued an order allowing, the previously blocked, administration ban on asylum seekers crossing the US-Mexico border without seeking and getting denied asylum in Mexico or another country first. The SCOUS order is not a final ruling, but it temporarily allows the administration to apply the ban while it is addressed by lower courts.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
Hús hæstaréttar Bandaríkjanna í Washington D.C. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tvær konur eru efstar á lista Donalds Trump Bandaríkjaforseti sem arftaki hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg. Forsetinn kveðst munu tilkynna val sitt næstkomandi föstudag eða á laugardag.

Sömuleiðis er forsetinn bjartsýnn á að Öldungadeild Bandaríkjaþings leggi blessun sína yfir valið fyrir forsetakosningarnar vestra 3. nóvember næstkomandi. Repúblikanar eru nú í meirihluta í deildinni.

Við Hæstarétt Bandaríkjanna starfa níu dómarar. Þegar forsetinn hefur tilkynnt val sitt fer það fyrir dómsmálanefnd Öldungadeildarinnar sem stýrt er af Lindsey Graham þingmanni Suður-Karólinu.

Hann er Repúblikani og fylgispakur forsetanum. Kamala Harris, varaforsetaefni Demókrata situr einnig í nefndinni. Að loknu undirbúningstímabili spyrja allir 22 meðlimir nefndarinnar þá eða þann tilnefnda spjörunum úr í heyranda hljóði. Sérfræðingar telja líklegt að Harris muni hvergi hlífa hverjum þeim sem Trump teflir fram.

Einfaldur meirihluti nægir

Telji nefndin viðkomandi hæfan til starfans tekur Öldungadeildin sjálf við. Þar sitja 100 þingmenn. Einfaldur meirihluti dugir til að staðfesta ævilanga skipun nýs hæstaréttardómara. Falli atkvæði að jöfnu hefur varaforsetinn úrslitavald.

Nú eru þingmenn Repúblikanaflokksins 53 en tveir þeirra hafa þegar lýst yfir að þeim finnist Öldungadeildin ekki eiga að greiða atkvæði um nýjan dómara fyrr en að afloknum forsetakosningum.

Skýrsla Bandaríkjaþings frá sumrinu 2018 sýnir að Öldungadeildin taki sér að meðaltali sjötíu daga til að fjalla um skipun hæstaréttardómara. Nú eru aðeins 43 dagar fram að kosningum.

Konurnar tvær

Efstar á lista Bandaríkjaforseta eru tvær konur. Amy Coney Barrett er 48 ára, dómari við áfrýjunardómstól í Chicago. Hún er kaþólikki og ákafur andstæðingur fóstureyðinga.

Hún hefur hlotið lof fyrir vel ígrundaða dóma en hefur ekki verið dómari nema síðan 2017. Þá var hún skipuð af Trump.

Hin heitir Barbara Lagoa og er alríkisdómari frá Miami. Hún er ættuð frá Kúbú og Trump lofar hana óspart. Sérfræðingar telja að verði Lagoa fyrir valinu muni það styrkja stöðu Trumps í lykilríkinu Florida í forsetakosningunum 3. nóvember næstkomandi.