Úttekt á starfsumhverfi borgarráðs kostar 2 milljónir

21.09.2020 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Kostnaður við úttekt á starfsumhverfi borgarráðs sem sálfræðistofan Líf og sál var fengin til að gera nemur tveimur milljónum króna. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur kvartað til Persónuverndar vegna úttektarinnar og kært hana til samgöngu-og sveitastjórnarráðuneytisins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar hana „tóma vitleysu.“

Það hefur verið grunnt á því góða í borgarráði á þessu kjörtímabili og nokkrir kjörnir fulltrúar hafa lýst starfsumhverfinu sem óbærilegu. Þá hafa fjölmiðlar fjallað ítarlega um deilur Vigdísar og Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra.

Yfirstjórn borgarinnar ákvað að fela Líf og sál að meta starfsumhverfið og gera úttekt á sálfélagslegum áhættuþáttum fyrir það starfsfólk sem situr fundi ráðsins eða þarf reglulega að taka sæti á fundunum. 

Vigdís hefur meðal annars snúið baki í Helgu Björg þegar hún tekur sæti á fundum borgarráðs og lagt fram bókanir þar sem hún gagnrýnir veru Helgu á fundunum. 

Í svari mannauðs-og starfsumhverfissviðs við fyrirspurn Vigdísar kemur fram að kostnaðurinn við úttektina nemi um tveimur milljónum. Þar kemur einnig fram að ekki hafi þótt ástæða til að leita álits Persónuverndar á úttektinni enda hafi ekki verið lagaskylda til þess.

Vigdís segir í bókun sem hún lagði fram á fundi borgarráðs í síðustu viku að hún hefði kvartað til Persónuverndar. Stofnunin hefði þegar brugðist við þeirri kvörtun með því að senda ítarlegar spurningar til borgarinnar.

Þá upplýsti Vigdís einnig að hún hefði kært þá ákvörðun yfirstjórnar borgarinnar að láta gera þessa úttekt til samgöngu-og sveitastjórnarráðuneytisins þar sem þess væri krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, kallaði úttektina „tóma vitleysu“ í bókun sinni.  Hún taldi jafnframt að sú aðferðafræði sem Líf og sál notaði við matið sitt á gráu svæði. Þá sagði hún að í ljósi þeirrar uppákomu sem hefði átt sér stað á fundi borgarstjórnar í síðustu viku væri fyrst og fremst nauðsynlegt að siða fólk til. „Það kostar engar 2 milljónir.“

Meirihlutinn sagði í bókun sinni að þátttaka væri valfrjáls með öllu og öllum væri heimilt að draga samþykki sitt um þátttöku til baka. Ekki væri verið að meta tiltekna einstaklinga heldur áhættuþætti í vinnuumhverfinu hjá þeim hópi sem tæki þátt í úttektinni. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi