Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tugir grafnir undir rústum íbúðahúss í útjaðri Mumbai

21.09.2020 - 04:52
Íbúðablokk hrundi í Bhiwandi úthverfi Mumbai á Indlandi 21. september 2020.
 Mynd: HT photo
Að minnsta kosti tíu eru látin í Bhiwandi úthverfi borgarinnar Mumbai á Indlandi eftir að þriggja hæða íbúðablokk hrundi.

Atvikið átti sér stað skömmu fyrir dögun í morgun. Talið er að allt að tuttugu og fimm liggi grafin undir rústunum. Um tuttugu hefur verið bjargað á lífi, þar á meðal einu barni.

Björgunarsveitir með leitarhunda hafa verið kallaðar til og leita nú í rústum hússins sem var 40 ára gamalt. Engin ástæða hefur enn verið gefin fyrir því að húsið hrundi.

Slík atvik eru algeng á Indlandi einkum á meðan regntímabilinu stendur því oft er sneitt hjá reglum við byggingu húsa. Önnur eru orðin gömul og þola illa álagið.