
Ekki sé þó vitað hver fjarlægði hann. Skjöldinn þurfi þó að finna því hann sé sönnunargagn gegn þeim sem komu honum fyrir. Enda er ólöglegt í Taílandi að hallmæla konungi landsins.
Á skjöldinn sem er eftirmynd annars eins frá árinu 1932 var letrað að Taíland tilheyrði fólkinu í landinu en ekki svikulum einvaldskonungi. Fjölmennustu mótmæli sem sést hafa um árabil urðu í Bangkok á sunnudag. Mótmælendur héldu áfram að kalla eftir umbótum á konungdæminu og afsögn Prayuth Chanocha forsætisráðherra. Einnig er uppi krafa um nýja stjórnarskrá og að efnt verði til kosninga í landinu.
Warong Dechgitvigrom, virtur hægri sinnaður stjórnmálamaður segir óviðeigandi að skildinum hafi verið komið fyrir og að konungur landsins væri yfir stjórnmál hafinn.
Mótmælin í Taílandi hafa nú staðið í á þriðja mánuð og mótmælendum vex sífellt ásmegin. Þeirra mat er að eðlilegt sé að gagnrýna konunginn sem hafi of mikil völd samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og að henni hafi verið breytt til að gera Prayuth kleift að komast til valda.
Forsætisráðherrann mótmælir þeim ásökunum harðlega. Boðað hefur verið til mótmæla næstkomandi fimmtudag og skipuleggjendur hafa hvatt landa sína til að leggja niður störf 14. október til stuðnings málstað þeirra.