Réttarhöld hefjast í Mehamn í dag

21.09.2020 - 06:00
Mehamn í Noregi
 Mynd: NRK
Réttarhöld hefjast í Noregi í dag yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem ákærður er fyrir að hafa af ásetningi skotið Gísla Þór Þórarinsson hálfbróður sinn til bana í norska smábænum Mehamn í apríl í fyrra.

Gísli Þór og Gunnar Jóhann voru hálfbræður og bjuggu báðir í bænum Mehamn í Norður-Noregi og stunduðu sjómennsku. Um 30 Íslendingar búa og starfa í Mehamn, sem er ekki nema um 800 manna samfélag, en íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki er starfrækt í bænum. 

Gunnar heldur því fram að hann hafi skotið bróður sinn fyrir slysni. Hann hafi ógnað bróður sínum með byssunni, bróðir hans gripið til varna og það leitt til þess að skot hafi hlaupið úr byssunni fyrir slysni. Gísli fékk skot í slagæð í lærinu sem varð til þess að honum blæddi út. 

Gunnar Jóhann hafði verið í nálgunarbanni síðan um miðjan apríl í fyrra vegna grófra hótana sem hann hafði upp við bróður sinn og fram kom í yfirlýsingu lögreglunnar í Noregi að hann hefði verið vistaður á stofnun dagana fyrir morðið.

Í frétt norska ríkisútvarpsins af málinu segir að lögreglan vildi handtaka Gunnar tveimur dögum áður en morðið var framið vegna hótana sem hann hafði viðhaft í garð hálfbróður síns og fyrrverandi konu sinnar. Lögfræðingur sem lögreglan ráðfærði sig við taldi ekki heimild til þess. 

Réttarhöldin áttu upphaflega að fara fram í desember, en frestað fram í mars. Þá setti Covid 19 faraldurinn strik í reikninginn og var þeim þá frestað fram í september.   

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Austur Finnmerkur í Vadsø.  Þegar réttarhöldin hefjast lýsir ákærði yfir sekt sinni eða sakleysi og eftir það taka við vitnaleiðslur. Að sögn saksóknara í málinu verða kölluð til 25 vitni. Áætlað er að málflutningi ljúki þriðjudaginn 29. september næstkomandi.
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi