Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hrakfarir Sigurhæða halda áfram - málið á byrjunarreit?

21.09.2020 - 15:29
Mynd með færslu
Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumsson og Guðrúnar Runólfsdóttur. Í baksýn er Akureyrarkirkja. Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Hrakfarir Sigurhæða, skáldahúsi Matthíasar Jochumssonar, halda áfram en nú virðast bæjaryfirvöld á Akureyri komin á byrjunarreit hvað varðar framtíð hússins. Í ljós hefur komið að kostnaður vegna viðgerða á þaki hússins, svo unnt sé að búa þar, sé 15-25 milljónir.

Hafa ítrekað óskað eftir aðkomu ríkisins

Matthías Jochumsson lét byggja Sigurhæðir árið 1903 og bjó þar og starfaði. Síðustu ár hefur Akureyrarbær átt í vandræðum með að finna húsinu hlutverk og hefur ítrekað óskað eftir því að ríkið komi að rekstri þess.  
Í október var sagt frá því að Akureyrarbær ætlaði að selja húsið. Því mótmæltu bæjarbúar harðlega; Facebook-hópur fór á flug og fjölmargar hugmyndir um notkun hússins spruttu fram. Meðal annars að þar yrði tónleikahús og aðstaða fyrir ungt listafólk. 

Í framhaldi af því hætti Akureyrarbær við fyrirhugaða sölu, Akureyrarstofa auglýsti húsið til leigu og áhugasamir voru hvattir til að skila inn greinargerð. Í henni átti meðal annars að koma fram fyrirhuguð starfsemi, menningarlegt vægi starfseminnar og tenging við sögu hússins; hvernig fjármögnun yrði háttað og tilboð í leigufjárhæð.

Fengu fjórar umsóknir

Fjórar umsóknir bárust Akureyrarbæ um aða taka Sigurhæðir á leigu. Eftir að umsóknarfrestur rann út ákvað stjórn Akureyrarstofu að ganga til viðræðna við Hótel Akureyri um leigu á húsinu. Þar ætlaði hótelið sér að tvinna saman menningarlega starfsemi á svæðinu við atvinnulífið, að því er Daníel Smárason, framkvæmdastjóri Hótels Akureyrar sagði í samtali við fréttastofu vegna málsins. Í sömu frétt var haft eftir Þórgný Dýrfjörð, framkvæmdastjóra Akureyrarstofu, að samningurinn væri góður og að drög að honum gætu legið fyrir innan tveggja vikna. Að þeim samningi varð þó aldrei því að í kjölfar COVID-19 faraldursins síðasta vetur dró Hótel Akureyri sig út úr samkomulaginu. 

Samið við næst besta kostinn

Þegar það lá fyrir að Hótel Akureyri gæti ekki gengið að samningum samþykkti stjórn Akureyrarstofu í maí á þessu ári að ganga til viðræðna við þau Kristínu Kjartansdóttur og Hlyn Hallsson um tilboð þeirra í leigu á Sigurhæðum. Það tilboð var á sínum tíma metið númer tvö af innsendum tilboðum. Hugmynd þeirra að nýtingu gerði ráð fyrir að búið yrði að staðaldri á efri hæð hússins.

Í því tilboði óskuðu þau eftir því að beytingar yrðu gerðar á hæðinni til að þess að það væri mögulegt til búsetu. Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar skoðaði húsið og sló því fram að kostnaður við viðgerðir yrði 2,5-3 milljónir króna. Í fundargerð stjórar Akureyrarstofu kemur fram að eftir þá skoðun hafi komið í ljós að frekari framkvæmda var þörf. „Eitt af því sem kanna þurfti áður en ljúka mætti samningi um tilboðið var grunur um leka í þaki hússins. Við skoðun kom í ljós að ekki var um eiginlegan leka að ræða heldur raka í þakrými sem þéttist og skilaði sér niður í gegnum loft á efri hæð. Að mati sérfræðinga UMSA er unnt að kom í veg fyrir þetta með til þess að gera litlum tilkostnaði og aukinni loftun. Þetta þýðir að húsið liggur ekki undir skemmdum og er hæft til safna- og menningarstarfsemi,“ segir í fundargerð Akureyrarsofu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Samfylkingin
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu

Dýrara að gera húsið íbúðarhæft 

Þrátt fyrir að hægt væri að laga húsið með litlum tilkostnaði var það mat umhverfis- og mannvirkjasviðs að til þess að hægt væri að búa í húsinu þyrfti enn frekari aðgerðir. „Til þess að mögulegt sé fyrir fjölskyldu að búa að staðaldri á efri hæð hússins þurfi að ráðast í mun meiri breytingar á þakinu og þakrými og auka loftun til muna vegna þess raka sem fylgir almennt búsetu fólks. Af þessum sökum mælir UMSA gegn því að búseta verði heimiluð í húsinu nema að ráðast fyrst í þær breytingar. Gróft mat á kostnaði við þær er að hann gæti numið á milli 15 og 25 m.kr,“ segir í fundargerð Akureyrarstofu. 

Forsendur brosnar

Á fundi stjórnar Akureyrarstofu í lok síðustu viku var svo ákveðað að slíta viðræðum við þau Hlyn og Kristínu. Forsendur sem gefnar voru þegar hugmyndin og tilboðið var metið í öðru sæti í lok síðasta árs eru brostnar. Af þessum sökum getur stjórn Akureyrarstofu ekki haldið áfram viðræðum um tilboðið sem hefur mögulega búsetu sem forsendu.

Bærinn á byrjunarreit?

Samkvæmt upplýsingum frá Þórgný Dýrfjörð, framkvæmdarstjóra Akureyrarstofu, gæti málið nú verið komið á byrjunarreit. „Við ætlum að bjóða Kristínu og Hlyni að leigja húsið án þess að vera með fasta búsetu í húsinu. Ef það er ekki framkvæmanlegt af þeirra hálfu þá ætlum við að auglýsa húsið aftur til leigu,“ segir Þórgnýr.  

Nánar má lesa um Sigurhæðir hér.

Sigurhæðir að vetri.