Fá endurgreitt fyrir helmingi styttri upptökur

21.09.2020 - 10:16
GDRN í Rabbabara Studio 12
 Mynd: Rúv
Íslenskri tónlistarmenn fá endurgreiðslu fyrir helmingi styttri upptökur en áður, ef lagasetningaráform atvinnu- og nýsköpunarráðherra verða að lögum. Tónlistarmenn fá nú fjórðung upptökukostnaðar endurgreiddan ef samanlagður spilunartími tónlistarinnar er meiri en 30 mínútur. Lagt er til að tíminn verði styttur í 14 mínútur.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum sem nú eru í samráðsgátt stjórnvalda segir að með tilkomu streymisveitna og mun minni plötusölu kjósi fleiri tónlistarmenn að gefa út stök lög, sem stundum er eru kallaðir singles upp á ensku, og stuttskífur.

Meðallengd dægurlaga er styttri nú en áður, segir í greinargerðinni. Fyrir 20 árum var meðallengd dægurlaga fjórar mínútur. Dægurlög í dag eru að jafnaði þrjár og hálf mínúta í dag. Endurgreiðsluhæf útgáfa verður, ef frumvarpið verður að lögum, að lágmarki fjögur lög að meðallengd.

„Ástæða þess er almennt talin vera sú að neysla tónlistar hefur færst yfir á streymisveitur þar sem uppgjör á skiptingu verðmæta fer eftir fjölda spillana.“ Með öðrum orðum getur það verið hagkvæmara fyrir tónlistarmenn að hafa lögin sín styttri.

STEF ánægð með tillöguna

STEF, samtök höfundaréttarhafa, fagna frumvarpsdrögunum og segja að með henni sé komið til móts við þarfir útgefenda og listamanna. Þetta muni styðja betur við innlendan tónlistariðnað.

Samtökin telja enn fremur að mikilvægt sé að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25 prósent af kostnaði hljóðritunar í 35 prósent. Þá yrði til nægjanlegur hvati fyrir erlenda tónlistarmenn að taka upp tónlist á Íslandi.

Ekki þörf á viðbótarfjármagni

Ráðuneytið gerir ekki ráð fyrir að það þurfi að veita meira fé í þessar endurgreiðslur en nú er gert, enda hefur það fjármagn sem gert ráð fyrir að notað sé ekki verið fullnýtt.

Til styttri tíma er gert ráð fyrir að heildarupphæð endurgreiðslu geti hækkað lítillega. Það er einkum vegna þess að fleiri verkefni ná tilskildum viðmiðunarmörkum, ef frumvarpið verður að lögum. Til lengri tíma er frekar gert ráð fyrir að breytingin hafi í för með sér tíðari endurgreiðslur frekar en hærri upphæðir.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á 151. þingi sem hefst 1. október.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi