Biðlistar lengst aftur eftir seinni bylgjurnar tvær

Biðlistar eftir aðgerðum hjá Landspítalanum hafa lengst aftur eftir að önnur og þriðja bylgja faraldursins skullu á. „Ég veit að það verður ærið verkefni að halda þjónustunni uppi“ segir forstjóri spítalans. Kostnaður spítalans vegna farsóttarinnar hleypur á milljörðum króna.

Viðbúnaðarstig Landspítalans er nú komið á hættustig eftir að klasasmit kom upp á skrifstofu yfirstjórnar spítalans og í skurðlækningaþjónustu hans. 200 starfsmenn eru nú komnir í sóttkví og þar á meðal forstjóri spítalans.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalan segir að búast megi við að biðlistar eftir aðgerðum lengist nú aftur.

„Eða að minnsta kosti að það gangi ekki mjög hratt hjá okkur að vinna þá niður. Ég veit að það verður ærið verkefni að halda þjónustunni uppi.“

Alger grímuskylda er nú á spítalanum en það dregur verulega úr smithættu og fjölda þeirra sem þurfa að fara í sóttkví. Páll telur líklegt að bakvarðasveit spítalans verði virkjuð.

„Það borgar sig að vera tímanlega með það og senda út ákall þannig að það fólk sem hefur þekkingu og reynslu sé þá í startholunum ef á þarf að halda. Hjúkrunarheimili og velferðarþjónusta þarf ekki síður á fólki úr bakvarðasveitinni að halda og það var ómissandi í vor.“

Kostnaður Landspítalans vegna Covid-19 hleypur á milljörðum króna.

„Hins vegar er alveg ljóst, og það hefur legið fyrir alveg frá upphafi, að sá kostnaður allur verður bættur spítalanum.“

 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi