Viðbrögð við faraldrinum sennilega efst í huga kjósenda

20.09.2020 - 17:21
Gauti B. Eggertsson, hagfræðiprófessor við Brown-háskóla í Bandaríkjunum, segir að þótt Donald Trump Bandaríkjaforseti beiti öllum brögðum til að beina athygli kjósenda frá kórónuveirufaraldrinum verði faraldurinn, og hversu illa hefur tekist að hefta útbreiðslu hans, efst í huga flestra í aðdraganda forsetakosninganna. Önnur stór kosningamál tengist óeirðum í tengslum við lögregluofbeldi, skógareldum í Kaliforníu og efnahagsástandinu.

Gauti bendir á að í Bandaríkjunum látist um 3.000 manns af völdum COVID-19 í hverri viku „sem eru jafnmargir og létust í árásunum 11. september“. Hátt í 200.000 hafa látist af völdum faraldursins í Bandaríkjunum og Gauti bendir á að það séu fleiri en hafa látist í stríðsrekstri Bandaríkjanna frá því í seinni heimsstyrjöldinni. 

Stuðningur við Trump sterkur þrátt fyrir allt

„Það sem kemur mér mest á óvart er hversu sterkur stuðningur er við Donald Trump. Það er alls ekki útilokað að hann nái endurkjöri þrátt fyrir að á þessu ári blasi við stærsta efnahagskreppa síðan í kreppunni miklu, farsótt, skógareldar og óeirðir. En samt sem áður er stuðningur við hann þetta sterkur,“ sagði Gauti í viðtali í Silfrinu í morgun.  

Hann sagði að að einhverju leyti skýrði það árangur Trump að hann talaði inn í stóran hóp hvítra millistéttarmanna sem hefðu ekki séð lífskjör batna mikið síðustu áratugi. „Hagvöxtur hefur aðallega safnast hjá ríkasta einu prósentinu. Þannig að tekjur meðalhóps og þeirra fyrir neðan meðaltekjur hafa lítið aukist. Og hans skýring var að það væri verið að svindla á Bandaríkjamönnum. Og hann lofaði bótum til þessa fólks. Ég er ekki að sjá að Demókrötum hafi tekist að tala inn í þennan hóp með sama hætti. Auðvitað má svo benda á að það eina sem Trump gerði var að lækka skatta til þeirra ríkustu, þegar hann náði völdum,“ sagði Gauti. 

Efnahagsinnspýting dempaði skellinn

Gauti segir ljóst að kröftug innspýting stjórnvalda í bandaríska hagkerfið hafi dregið úr efnahagsáhrifum faraldursins. Stuðningur stjórnvalda hafi verið þrenns konar; í fyrsta lagi hafi Seðlabankinn komið með töluverða innspýtingu, svo hafi stjórnvöld ráðist í aðgerðir til að fleyta fyrirtækjum yfir versta hjallann, og í þriðja lagi hafi stjórnvöld veitt beinum stuðningi til allra undir ákveðnum tekjumörkum. Þrátt fyrir þetta blasi við Bandaríkjamönnum stærsta efnahagskreppa frá því í Kreppunni miklu og útlit sé fyrir að ástandið versni í haust. 

Kosningabarátta um persónueinkenni frekar en málefni

Gauti segir að engin kröftug kosningabarátta hafi verið háð um málefnin. „Demókratar hafa lagt áherslu á karaktereinkenni Trumps, óheiðarleika og svo framvegis. Og Trump hefur sagt Biden elliæran,“ segir hann. Síðasta kosningabarátta hafi verið í svipuðum dúr. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi