Trump kveðst ætla að tilnefna konu í Hæstarétt

Mynd með færslu
 Mynd: EPA - EPA POOL
Arftaki hinnar frjálslyndu Ruth Bader Ginsburg við Hæstarétt Bandaríkjanna verður kona. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti þetta í gær.

„Í næstu viku tilkynni ég hver verður fyrir valinu," sagði Trump þar sem hann var staddur á kosningafundi í Fayetteville í Norður-Karólínuríki. „Það verður kona, mér líkar svo mikið betur við konur en karla," bætti forsetinn við.

Í bakgrunni mátti heyra stuðningsmenn hans hvetja hann til að manna stöðuna strax. Trump nefndi nöfn Amy Coney Barrett sem starfar við sjöunda áfrýjunardómstólinn í Chicago og Barböru Lagoa við ellefta áfrýjunardómstólinn í Atlanta.

Þetta verður í þriðja sinn sem Trump tilnefnir Hæstaréttardómara en hver sem verður fyrir valinu situr í dómarasæti ævilangt. Forsetinn sagði það stjórnarskárvarinn rétt sinn að tilnefna arftaka Ginsburg og að hann hefði nægan tíma til þess. Innsetningarathöfnin væri ekki fyrr en 20. janúar.

Viðbúið er að hann muni velja íhaldsamari dómara en Ginsburg var og þá yrðu aðeins þrír af níu dómurum frjálslyndir í skoðunum. Þegar tilnefning Trumps liggur fyrir dugir einfaldur meirihluti í Öldungadeildinni til að staðfesta valið. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi