Smit hjá Rás 2 og Víðir meðal þeirra sem fóru í sóttkví

20.09.2020 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Starfsmaður Rásar 2 greindist með Covid 19 í gærkvöld. Unnið er að smitrakningu en fyrir liggur að sex starfsmenn Rásar 2 og númiðladeildar eru komnir í sóttkví, auk einhverra viðmælenda. Þar á meðal er Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Fram kemur í tölvupósti frá Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra til starfsmanna RÚV að eftir að smitið var greint í gærkvöldi hafi verið unnið að smitrakningu og mati á næstu skrefum í samvinnu við smitrakningarteymi almannavarna. Að minnsta kosti sex starfsmenn eru nú þegar komnir í sóttkví sem og einhverjir viðmælendur Rásar 2. 

Víðir í sóttkví eftir viðtal

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er meðal þeirra viðmælenda sem þurfa að fara í sóttkví. Víðir fékk símtal frá smitrakningarteyminu í gærkvöld um að einstaklingur sem hann hafi verið í samskiptum við hafi greinst í gær.

„Tíminn sem ég dvaldi með þessum einstaklingi var það langur að hann sé innan þeirra marka að ég fari í sóttkví. Þarna var gætt samt allra almennra sóttvarnaráðstafana og fjarlægðin var meiri en tveir metrar á milli okkar allan tímann. Út frá mati sem smitrakningarteymið gerir í hvert skipti þá telst ég hafa verið innan þessara marka og er þar af leiðandi kominn í sóttkví,” sagði Víðir í hádegisfréttum. 

Uppruni smitsins ekki ljós

Stefán segir í póstinum að uppruni smitsins sé ekki ljós á þessum tímapunkti. Þá séu ekki tengingar milli þessa smits og smits hjá öðrum starfsmanni Rásar 2 sem kom í ljós í síðustu viku, eftir því sem best er vitað.

Ákvarðanir um næstu skref innan RÚV verða teknar í dag, hvað varðar auknar öryggisráðstafanir eða breytingar á sóttvarnarreglum. 

„Búast má við því að meðal varúðarráðstafana verði að fólk sem það getur haldi sig heima til að byrja með og fleira,” segir Stefán. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi