Ítalir ganga að kjörborðinu

epaselect epa08281082 A tourist wearing a mask sits at the tables of a restaurant in front of the Colosseum, in Rome, Italy, 09 March 2020. Italy reported 133 more deaths with the coronavirus on 08 March bringing the total causalities at 366, emergency commissioner and civil protection chief Angelo Boorelli said. Some 6,387 people are now infected with the virus across Italy, he added.  EPA-EFE/ALESSANDRO DI MEO
 Mynd: EPA - RÚV
Ítalir ganga að kjörborðinu í dag. Þar verður kosið til héraðsstjórna auk þess sem kannaður verður hugur Ítala til þess að fækka þingmönnum verulega í báðum deildum ítalska þingsins.

Kosningarnar nú verða fyrsta prófraun ríkisstjórnar Giuseppe Conte eftir að hún fyrirskipaði strangt útgöngubann sem hefur haft afgerandi áhrif á efnahag Ítalíu.

Búist er við að kjósendur samþykki tillöguna um fækkun þingmanna í neðri deild þingsins úr 630 í 400 og í efri deild úr 315 í 200. Skoðanakannanir benda þó til að andstæðingum þeirrar tilhögunar fari fjölgandi.

Breytingin, sem ætlað er að lækka ríkisútgjöld, er runnin undan rifjum Fimmstjörnuhreyfingarinnar. Lýðræðisflokkurinn, samstarfsflokkur hennar í ríkisstjórn, er að nafninu til sama sinnis. Það á einnig við um hægri flokkana á þingi en stuðningur þeirra hefur verið harla dauflegur.

Nokkrar áhyggjur eru meðal Ítala vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins en nú greinast yfir fimmtán hundruð ný smit daglega þar í landi. Massimo Galli, smitsjúkdómasérfræðingur við Sacco-sjúkrahúsið í Mílanó, segir ámælisvert að láta fólk flykkjast á kjörstað undir þeim kringumstæðum.

Stjórnmálaskýrendur telja að niðurstöður kosninganna muni ekki verða til að ríkisstjórnin falli en það gætu komið til erfiðleikar sem lyktað gæti með afsögn Contes eða jafnvel leitt til myndunar þjóðstjórnar allra flokka.

Ráðstafanir hafa verið gerðar á kjörstöðum, einkum til að vernda eldri borgara og vanfærar konur. Vinstri flokkarnir hafa skipulagt flutning eldra fólks á kjörstað enda fullyrðir dagblaðið Corriere della Sera að þriðji hver kjósanda þeirra sé eldri en 65 ára.

Vel á annað þúsund kjósendum sem dvelja í einangrun verður gert kleift að greiða atkvæði sem verða sótt heim til þeirra. Meðal þeirra sem nýta sér það úrræði er Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra landsins.

Fjölmargir starfsmenn á kjörstöðum hafa beðist undan skyldu sinni af ótta við að smitast þegar kjósendur taka ofan grímu sína svo hægt sé að bera kennsl á þá. Þegar hefur þurft að auglýsa eftir meira en 100 nýjum starfsmönnum vegna þess í Mílanó-borg.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi