„Förum óhræddar inn í þennan leik“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

„Förum óhræddar inn í þennan leik“

20.09.2020 - 17:25
Hallbera Guðný Gísladóttir, sem er ein af leikreyndari leikmönnum íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, telur að liðið eigi góða möguleika gegn Svíum og þær mæti óhræddar til leiks.

Ísland tekur á móti Svíum í toppslag riðilsins í undankeppni EM á þriðjudaginn. Svíar eiga eitt besta landslið í heimi en liðið vann til bronsverðlauna á HM í Frakklandi í fyrra og þá lenti liðið í öðru sæti á síðustu Ólympíuleikum. Ísland burstaði Lettland 9-0 í undankeppninni á fimmtudag en nú tekur við miklu talsvert erfiðari leikur. 

Á síðustu árum þegar allt hefur gengið upp hjá okkur þá getum við unnið hvaða lið sem er,“ sagði Hallbera í samtali við RÚV í dag fyrir stórleikinn á þriðjudaginn. Hún segist þó meðvituð um styrkleika sænska liðsins.

„Þær eru með mjög rútínerað lið og hafa spilað lengi saman og þekkja hvor aðra mjög vel, ég hugsa að það sé ekki mikið af veikum hlekkjum í þessu liði. Þær eru snöggar fram á og nýta svæðin vel, við þurfum að vera agaðar í okkar varnarleik. Á móti kemur er að það er alveg tækifæri fyrir okkur að sækja á þær.“

„Við förum bara óhræddar inn í þennan leik og setjum stefnuna á að taka þrjú stig,“ sagði Hallbera að lokum.

Leik Íslands og Svíþjóðar verður lýst beint á RÁS2 á þriðjudaginn og hefst útsending klukkan 17:50.