Dómari setur lögbann á áform Trumps gegn WeChat

20.09.2020 - 15:43
epa08678599 (FILE) - Icons of Chinese internet media apps (L-R, bottom) Weibo, WeChat and Baidu are displayed on an iPhone in Beijing, China, 13 August 2017 (reissued 18 September 2020). The US Commerce Department on 18 September 2020 announced that downloads of ByteDance's video sharing app TikTok and multi-purpose messaging and payment platform WeChat will be blocked in the US starting 20 September 2020.  EPA-EFE/HOW HWEE YOUNG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómari í Kaliforníu setti í dag lögbann á þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að loka á niðurhal efnis í WeChat samskiptaforritinu, innan við sólahring áður en tilskipun stjórnvalda átti að taka gildi. Bandaríkjastjórn hugðist stöðva starfsemi hvort tveggja WeChat og TikTok í Bandaríkjunum nema breytingar yrðu á rekstrinum. Stjórnvöld sögðu að samfélagsmiðlarnir tveir ógnuðu þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Dómarinn í Kaliforníu sagði hins vegar að bann við niðurhali ógnaði tjáningarfrelsi notenda.

Bæði WeChat og TikTok eru í eigu kínverskra fyrirtækja.

Ef áform stjórnvalda hefðu náð fram að ganga hefðu nítján milljónir notenda WeChat í Bandaríkjunum ekki getað notað forritið til að hafa samskipti sín á milli. Forritið býður upp á myndbandsskilaboð og myndsamtöl. 

Forsvarsmenn TikTok komust að samkomulagi við Oracle um að bandaríska fyrirtækið kæmi að rekstri TikTok og sæi um gagnamál forritsins. Þannig var komið í veg fyrir að lokað yrði á starfsemi forritsins í Bandaríkjunum. Bandaríska viðskiptaráðuneytið frestaði í gær um viku gildistöku banns við niðurhali efnis í TikTok svo færi gæfist á að ganga frá samkomulagi TikTok og Oracle. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann hefði veitt samþykki sitt fyrir samingi TikTok og Oracle.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi