Veðurspáin batnar til muna

19.09.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Veðurspáin fyrir næstu daga hefur batnað verulega. Veðurstofa Íslands hefur afnumið gular vinda- og úrkomuviðvaranir sem áttu að taka gildi á öllu norðanverðu landinu og á miðhálendinu á morgun. Búist var við að viðvaranirnar yrðu appelsínugular þegar nær drægi.

Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðustofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að spáin fyrir morgundaginn líti vel út. „Viðvaranirnar urðu grænar í morgun og voru að detta út. Það urðu bara þessar góðu breytingar. En það hefur verið þessi mikla óvissa í þessari lægð, varðandi dýpt og braut lægðarinnar og hvert hún er að fara. Það er svo sem alltaf möguleiki að spáin breytist aftur til hins verra, og þá er það bara nýjasta spáin sem gildir,“ segir hann. 

Veðurstofan hafði spáð gulum vindaviðvörunum á Ströndum og Norðurlandi-vestra og Norðurlandi-eystra, sem og á Austurlandi af Glettingi og Miðhálendinu. Þá hafði verið tilkynnt um gular úrkomuviðvaranir á Breiðafirði og Vestfjörðum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi